Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:39:57 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir málefnalega og góða ræðu. Það kemur ekki á óvart að hann hafi farið vel yfir málið og skoðað það vel. Mér fannst hann koma inn á marga áhugaverða þætti.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að það er ekki góður bragur á því hvernig við höfum unnið þetta og hver niðurstaðan verður. Því miður er þetta mál væntanlega ekki búið og okkur hefur ekki tekist vel að takast á um það og læra á því til að byggja upp eftir hrunið, því miður. Ef maður talar um virðingu Alþingis þá er það dómurinn sem nú þegar er fallinn.

Hann ræddi hins vegar ýmsa hluti sem við höfum mjög lítið rætt eins og t.d. ábyrgð þingmanna. Nú er það þannig að við skiptum þinginu eftir nefndum. Við sem sitjum í nefndunum getum kallað fram upplýsingar og það vissu auðvitað allir að það voru óveðursský á lofti. Lítið hefur verið rætt hvað hv. þingmenn hefðu getað gert betur. Sumir þingmenn hafa látið að því liggja að þeir hafi vitað þetta allt saman. Ég kem örugglega að því síðar í umræðunni almennt. Þeirra ábyrgð er þá langmest því ekki er hægt að sjá að þeir hafi gert neitt til að afstýra hruni. Þvert á móti voru þeir jafnvel í stöðu til að koma í veg fyrir skaða en gerðu það ekki. Þetta hef ég rætt í þinginu.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann af því að hann talaði um apríl 2008, það hefur lítið verið rætt: Hvernig líður hv. þingmanni með það að við séum að klára þetta núna eftir nokkra klukkutíma og þessum málum er velt hér upp, jafnstórum og þau eru?

Ég held að flestir sem kæmu að máli eins og þessu, og stæðu utan við íslensku umræðuna, kæmust að þeirri niðurstöðu að byrja á bankamálaráðuneytinu og ráðherranum sem sér um það, ber þar ábyrgð og getur kallað fram allar upplýsingar. Menn eru svona á því að ýta þeim hæstv. ráðherra frá og hann vísar svo í rökstuðningi sínum til þess (Forseti hringir.) að FME og FÍ hafi verið sjálfstæðar stofnanir og ekki heyrt undir hann beint eða að hann hafi ekki getað haft bein áhrif á þær. (Forseti hringir.) En sérstakur saksóknari vísaði einmitt málefnum forstöðumanna þeirra stofnana frá.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)