Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:42:25 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið sem örlaði á í ræðu hv. þingmanns og kom raunar kannski betur fram í andsvari hans fyrr í umræðunni, að sá tími sem hefur verið tiltækur í þinginu til að fara yfir málið hefði auðvitað mátt vera meiri og lengri. Sérstaklega vegna þess að þingmannanefndin vann þetta aðeins í sínum hópi og það er óvenjulegt um starf í nefnd að við aðrir þingmenn höfðum engin færi á að fylgjast með vinnunni sem fór fram þar. Við höfum á tiltölulega stuttum tíma þurft að taka afstöðu til niðurstöðu hennar.

Um leið er það svo að hér fyrir utan gluggana, meðan við ræðum þessi mál, brenna eldar víða í samfélaginu. Það eru nauðungaruppboð og atvinnuleysi og fyrirtæki í þrotum og kallað eftir því að við tökum ekki of mikinn tíma í þessar umræður og tökum önnur málefni á dagskrá.

Hvað varðar röðina á því hvernig ég skoðaði hug minn í þessum efnum fór ég einfaldlega þar fyrst yfir formenn stjórnarflokkanna, hvorn á eftir öðrum, og síðan hina almennu fagráðherra, einn úr hvorum flokki. Ég leitaðist við, eftir fremsta megni, að móta mér afstöðu til málefnisins eins og ég trúi að þingheimur allur geri og reyni að leggja að jöfnu það sem vert er að leggja að jöfnu.