Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:51:30 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að alþingiskosningar mundu kannski ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag en þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að hér á þingi eru 23 þingmenn sem áttu aðild að hrunstjórninni. Nú er bersýnilega komið í ljós hver aðkoma þeirra að því hruni var, hverjir þeirra voru mjög vel tengdir t.d. inn í fjármálafyrirtæki og þáðu stórfellda fjármuni frá þeim, hverjir tóku ákvarðanir og hverjir tóku ekki ákvarðanir í aðdraganda hrunsins og hverjar þær ákvarðanir voru þannig að þingkosningar mundu ekki leysa það vandamál. En þingkosningar mundu kannski gera það að verkum að hér veldist inn á Alþingi fólk sem væri trúverðugra en er á þingi í dag. Það skiptir að mínu mati miklu máli. Það er ekki sérlega trúverðugt með hvaða hætti Alþingi afgreiðir hrunið og ef kosningin fer þannig í dag að því verði hafnað að mál þessara fjögurra ráðherra fari viðeigandi og eðlilega leið leyfi ég mér að spyrja: Á hvaða forsendum verður hægt að setja nýtt Alþingi næstkomandi föstudag 1. október? Til hvers er þá verið að því og hvað finnst mönnum, honum og öðrum hv. þingmönnum, um að haldið verði áfram eins og ekkert hafi í skorist?