Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:54:54 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Íslenskt efnahags- og atvinnulíf og íslenskar fjölskyldur hafa orðið fyrir mesta tjóni — efnahagslegum hamförum, má segja — sem um getur. Það er verið að takast á við afleiðingarnar á mörgum vígstöðvum. Gripið hefur verið til margvíslegra úrræða fyrir heimilin og ekki sér fyrir endann á því. Það er uppbygging banka- og fjármálakerfisins, það er endurheimt trausts á Íslandi og Íslendingum erlendis, rannsóknir á orsökum og aðdraganda hruns og ábyrgð. Bankar, eftirlitsstofnanir, stjórnmál, stjórnsýsla — enginn má skerast úr leik.

Á stjórnmálastéttinni hvílir mikil ábyrgð og senn reynir á hvort hún rís undir henni en þar veldur hver á heldur. Alþingi ákvað að ráðast í ítarlega rannsókn á orsökum og aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins með óháðri rannsóknarnefnd. Það var gert með sérstökum lögum og var frumvarp flutt af hæstv. þáverandi forseta Alþingis og formönnum stjórnmálaflokkanna sem þá sátu á Alþingi. Sett var á fót sérstök rannsóknarnefnd. Talið var nauðsynlegt að ríkið mundi líta í eigin barm. Í greinargerð með því frumvarpi, frá árinu 2008, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eðlilegt er að ríkisvaldið horfi enn fremur í eigin barm og athugi hvort því hafi brugðist bogalistin. Þar sem rannsókn á þætti ríkisvaldsins í þessari atburðarás getur öðrum þræði beinst að aðgerðum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra er eðlilegt að hún fari fram á vegum Alþingis.“

Sett var á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd. Við breyttum síðan lögunum og ákváðum að skipa sérstaka þingmannanefnd til að fjalla um niðurstöður hennar. Í athugasemdum með þeim lögum segir m.a., með leyfi forseta:

„Viðfangsefni þingmannanefndarinnar og þingsins í heild munu ráðast af umfjöllun rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Sú umfjöllun markast af verkefnum rannsóknarnefndarinnar eins og þau voru skilgreind í 1. gr. laganna.“

Síðan segir:

„Eftir atvikum kemur það enn fremur í hlut hennar [þ.e. þingmannanefndarinnar] að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það er hlutverk þingsins.“

Það dylst engum hvað í þessu felst. Hvað þýðir það að fjalla um ábyrgð að því marki sem það er hlutverk þingsins? Það er skilgreint í lögum um ráðherraábyrgð og lögum um landsdóm. Þannig var það alveg ljóst hvert uppleggið var með skipun þessara nefnda og með því að setja þetta mál í þennan farveg. Niðurstöður þessara nefnda liggja fyrir og hafa verið til umfjöllunar á Alþingi og í samfélaginu um nokkurt skeið alveg frá því að rannsóknarnefndin skilaði niðurstöðum sínum fyrr á árinu.

Talsvert hefur verið talað um það nú síðustu dagana að þingmannanefndin hafi ekki staðið sig alveg nægilega vel, hún hafi ekki skilað nógu góðu verki, hún hafi ekki gert réttu hlutina. Það er þvert á það sem var sagt strax í upphafi þegar skýrsla þingmannanefndarinnar kom. Þá luku allir lofsorði á vinnu hennar. Einhverjum sólarhringum síðar, þegar það var farið að síast inn í menn að þar væru tillögur um málshöfðun gegn ráðherrum, fór að heyrast annað hljóð héðan og þaðan, meðal annars frá hæstv. forsætisráðherra, meðal annars í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan, að þingmannanefndin hafi ekki unnið verk sitt nægilega vel. Það má hins vegar ekki gleyma því að 9 af 9, allir fulltrúar í þingmannanefndinni, samþykktu þær úrbætur og þær tillögur sem nefndin leggur til og varð sammála um. Hún var einhuga í öllum sínum tillögum þar til kemur að ákærumálum. Aðeins tveir fulltrúar sjálfstæðismanna vilja ekki að höfðað sé mál á hendur fyrrverandi ráðherrum en 7 af 9 nefndarmönnum eru sammála um að rétt sé að láta ráðherra svara til saka fyrir dómi. Það er skýr og eindregin niðurstaða. Hvort ráðherrarnir eru síðan þrír eða fjórir, eins og kemur fram í tveimur mismunandi tillögum, er ekki stóra málið í mínum huga.

Mikið hefur verið rætt um pólitíska misbeitingu. Hv. þm. formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, talaði um það í ræðu sinni í gær og vitnaði þar í grein sem hann ritaði í dagblöðin í síðustu viku undir heitinu Landsdómur. Þar vísaði Bjarni Benediktsson til umræðna á Alþingi árið 1963 þegar ný lög um landsdóm og endurskoðuð lög um ráðherraábyrgð voru samþykkt en frumvörpin voru flutt af þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktssyni. Einkum rekur Bjarni umræður um hversu mikið af matskenndum atriðum væru lögð til grundvallar hugsanlegri refsiábyrgð samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum og hættuna á pólitískri misbeitingu. Verða þessi orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar ekki skilin á annan veg en þann að hann telji slíka pólitíska misbeitingu ráða för í þeim ráðherraábyrgðarmálum sem nú liggja fyrir Alþingi og skilyrði laganna um refsiábyrgð séu ekki uppfyllt. Síðan segir hann í grein sinni: „Það er mat þess sem hér skrifar að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt.“ Þar með segir formaður Sjálfstæðisflokksins að persónulegt mat hljóti að ráða afstöðu til hugsanlegrar refsiábyrgðar en gefur jafnframt í skyn að það hljóti að vera hans mat sem eigi að ráða en ekki annarra ef það er á annan veg og er þetta nokkuð sérkennileg afstaða. Hann rekur síðan mál sem hann telur að sé sambærilegt og vísar þar til fundar sem hann átti í Stjórnarráðinu sem formenn stjórnmálaflokka voru boðaðir til. Hann talar um nauðsyn þess að höfða mál á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Gylfa Magnússyni og Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá sök, að því er virðist, að „alvarleiki [hafi dropið] af andlitum embættismanna og ráðherra“. Þetta er hv. þm. Bjarni Benediktsson að leggja að jöfnu.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst þessi málflutningur algerlega óboðlegur og ekki sæmandi formanni í stjórnmálaflokki. Við höfum tekið ákvörðun um það á Alþingi að setja á laggirnar sérstaka rannsókn, ítarlega rannsókn á orsökum og aðdraganda hrunsins, og ábyrgð í því efni. Hættan á pólitískri misbeitingu á ekki að vera fyrir hendi ef málsmeðferð er vönduð og byggð á gaumgæfilegri og óhlutdrægri rannsókn eins og til er að dreifa í því tilefni sem við fjöllum um hér og nú. Slík vinna er að mínu mati forsenda þess að við getum yfirleitt staðið í þeim sporum sem við alþingismenn stöndum nú, að taka afstöðu til málshöfðunar gegn ráðherrum vegna meintra brota á lögunum. Landsdómur dæmir slík mál. Alþingi dæmir ekki slík mál. Erum við hér til að dæma?

Sigurður Tómas Magnússon, lagaprófessor og fyrrverandi dómari, var í viðtali í útvarpinu í síðustu viku. Þar segir hann m.a. að ríkari ástæður séu til að kæra ráðherra og opinbera embættismenn en aðra sé grunur um refsivert athæfi og þegar mál hafa almennt mikla þýðingu. Hann segir líka að það sé ekki síður vald að ákæra ekki en að ákæra. Ákvörðun um málshöfðun er ekki dómur. Það er ekki hlutverk okkar að dæma. Það er hlutverk óháðs óvilhalls dómstóls og það gildir að sjálfsögðu sú regla íslensks réttarfars að enginn er sekur nema sekt hans sé sönnuð. Réttarstaða þeirra sem hér eiga hlut að máli er tryggð. Yfir það er ítarlega farið í áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem fylgir nefndaráliti meiri hluta þingmannanefndarinnar og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hér því að yfir það hefur verið farið í ágætu máli.

Ákvörðun Alþingis um að höfða ekki mál er hins vegar dómur. Í slíkri ákvörðun felst dómur Alþingis um sýknu. Í því felst mikið vald, pólitískt vald, pólitískt dómsvald. Þar er hætta á pólitískri misbeitingu.

Í umræðum í gær var nokkuð rætt um skipið sem hafði strandað, um ábyrgð skipstjórans, og færð rök fyrir því að ábyrgðin væri fyrst og fremst hans. Og ég get tekið undir það að mörgu leyti. Það þýðir ekki að aðrir áhafnarmeðlimir, stýrimenn eða bátsmenn, kunni ekki að bera einhverja ábyrgð að lögum en hún getur verið minni. Þeir geta átt sér ýmsar málsbætur. Það getur átt við í því tilfelli sem við ræðum hér. Það geta verið atriði sem koma fram og geta verið til refsilækkunar ef um refsivert brot er að ræða. Ábyrgðin getur verið mismikil og menn geta jafnvel gengið svo langt að segja að ábyrgðin sé ekki skipstjórans, ekki stýrimannsins, ekki bátsmannsins heldur skipasmiðsins í Bremerhaven eða Larvik eða Hádegismóum eða hvað það nú kann að vera. (Gripið fram í.)

Það er hins vegar óumdeilt að við völd sat ríkisstjórn Geirs Haardes og ábyrgð hennar er mikil. Ég ítreka það að ábyrgð einstakra ráðherra kann að vera mismikil í þessu efni. En ábyrgðin er engu að síður til staðar. Formið á ekki að þurfa að vera ágreiningsefni að mínu viti en við ættum að ræða efnislega af hverju við erum í þessum sporum og þessum umræðum. Hvers vegna er verið að ræða hvort mögulega eigi að ákæra ákveðna ráðherra? Það er vegna þess að hér varð eitt mesta efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir án þess að náttúra eða stríð hafi verið orsakavaldur. Til þess að skilja þetta samhengi allt höfum við sett á laggirnar rannsóknarnefndir um embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknir. Til rannsóknar hafa meðal annars verið aðilar sem voru leiðandi á svokölluðum útrásarárum og sem sannarlega bera mesta ábyrgð á þessu öllu. Við skulum ekki gleyma því. Við skulum ekkert draga undan í því.

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna bera þeir sömuleiðis ábyrgð á því sem aflaga fór og þeim þungu byrðum sem íslenskur almenningur þarf nú að axla í formi yfirskuldsetningar heimila, atvinnuleysis, gjaldþrota, heimilismissis og fjölda gjaldþrota í atvinnulífinu. Á enginn að þurfa að bera ábyrgð né axla ábyrgð nema þeir sem svo sannarlega bera hana ekki að sönnu?

Við þurfum, frú forseti, að svara um ábyrgð stjórnmálastéttarinnar. (Gripið fram í: Það er rétt já.) Það er spurt: Hvað átti að gera og hvernig? Ítrekað hefur verið farið upp í andsvör og spurt: Hvað áttu menn að gera? Nákvæmlega. Hvað áttu menn að gera? Verður það ekki að vera ljóst ef menn ætla að taka ákvörðun um að höfða mál á hendur ráðherrum. Eða er nægilegt að slík yfirvofandi hætta hafi verið fyrir hendi að heill ríkisins hafi verið í húfi og þess vegna hafi verið ljóst að ráðamenn þjóðarinnar áttu að grípa til ráðstafana til þess að minnsta kosti að draga úr því tjóni sem kannski varð ekki forðað, eins og rannsóknarnefndin segir vissulega, eftir árið 2006. En menn áttu að grípa til ráðstafana. Og það voru slík teikn á lofti og skilaboð vítt og breitt um kerfið og þeir sem voru á þeim póstum sem hér um ræðir máttu, áttu og gátu vitað það. Þeir áttu þá auðvitað líka að svara því til hvaða ráðstafana átti að grípa eða ekki grípa. Það er verið að snúa hlutunum á haus með því að spyrja alla hina og segja: Af hverju getið þið ekki sagt hvað átti að gera?

Það er að sjálfsögðu hægt að vísa og vitna um ýmsa hluti í þessu efni, t.d. það að á árinu 2005 — og þá erum við að tala um aðra ríkisstjórn en þá sem hér er undir, því að hún bar líka ábyrgð þó að sök hennar sé að lögum fyrnd. Það hefði átt að grípa til aðgerða til að tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði, viðhalda stöðugleika, halda aftur af skuldasöfnun heimilanna. En það var ekki gert. Það hefði mátt fela Fjármálaeftirlitinu að gera áhættumat í bankakerfinu, t.d. hvað varðar áhrif af allri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteigna. Hættumerkin blöstu við. Það hefði mátt beina því til Seðlabankans að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, draga úr þenslu á peningamarkaði, endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Það átti að grípa til aðgerða sem tryggðu aðhald í ríkisfjármálum og mundu slá á þensluna, t.d. með því að slá á frest eða falla frá skattalækkunum sem þá voru ákveðnar. Það hefði mátt efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja, aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir til að forða íslenskum almenningi frá því tjóni sem á annað borð var hægt að forða honum frá á þessum tíma og tryggja þannig þátttöku allra. Á þeim tíma þegar það blasti við að ekki gat stefnt í annað en fullkomnar ógöngur í efnahagsmálum. Í stað þess að ferðast um heiminn í þeim tilgangi einum að reyna að koma erlendum þjóðum í trú um að íslenskt efnahagslíf stæði ekki aðeins traustum fótum heldur værum við framar öðrum þjóðum í þeim efnum áttu ráðherrar ríkisstjórnarinnar að viðurkenna vandann sem allir aðrir sáu en þeir sjálfir.

Það er hægt að benda á ýmsa slíka þætti sem hefði mátt grípa til, hefði mátt gera fyrr og eins þegar aðvörunarljósin voru öll farin að blikka hvert á fætur öðru á árinu 2008. Það var kannski ekki hægt að forða hruninu en það hefði sannarlega mátt lágmarka tjónið.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að mikil ábyrgð hvíldi nú á stjórnmálastéttinni og spurning hvort hún rís undir þeirri ábyrgð. Ætlar stjórnmálastéttin að taka þátt í því með þjóðinni að gera upp þá skelfilegu atburði sem hér urðu eða ætlar hún að ákveða að um hana sjálfa gildi önnur lögmál en aðra í samfélaginu, að um hana sjálfa gildi annað réttlæti? Þetta eru samviskuspurningar sem við hvert og eitt stöndum frammi fyrir.

Ég ítreka einnig það sem ég hef þegar sagt í ræðu minni að í ákvörðun um að höfða mál á hendur ráðherrum felst ekki dómur Alþingis heldur ákvörðun um að málið sé skoðað og rannsakað af þar til bærum dómstóli, af æðsta dómstóli landsins, og hið sanna verði leitt í ljós því að þannig er að orði komist í lögunum um landsdóm, hið sanna leitt í ljós. Í ákvörðun um að höfða ekki mál felst hins vegar dómsvald, ákvörðun um sýknu í þessum sal, pólitískt dómsvald. Ég vara mjög við slíkri ákvörðun.

Ég á mér hins vegar þá von að afgreiðsla Alþingis í dag verði þinginu til sóma eins og allt vinnuferlið til þessa hefur verið. Ég vil enn á ný ítreka þakkir til þingmannanefndarinnar og þeirra sem unnið hafa með henni, ráðgjöfum og starfsfólki og þingmönnunum öllum sem þar hafa setið, fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Enda þótt þau hafi ekki öll verið sammála að lokum þá eiga þau öll óskiptar þakkir skildar. Ég á mér þá von að Alþingi reisi sig í þessum málum í sátt við þjóðina en ég er ekki sannfærður um að málinu ljúki hér og nú.