Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 12:16:37 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við ræðu hv. þingmanns þar sem hann vitnar í blaðagrein eftir hv. þm. Bjarna Benediktsson og leggur það mat á þá grein að hann ætlist til þess að aðrir hafi sams konar mat og hann. Það sem hv. þingmaður var að gera með þessum greinarskrifum sínum var að benda á hvað ákæruatriðin væru matskennd. Ég bið hv. þingmann, sem heldur því fram að hlutirnir eigi að vera með einhverjum fyrir fram ákveðnum hætti sem hann telur skynsamlegast, að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég ætla bara að biðja hv. þingmann um það. Og að halda því fram að svona málflutningur sé ekki boðlegur er honum til mikils hnjóðs.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á þá erfiðleika sem hafa verið á undanförnum mánuðum við að reisa þjóðfélagið við eftir þetta hörmulega bankahrun: Hver er skoðun hv. þingmanns á því þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leyndi lögfræðiáliti sem varð til þess að bankarnir voru stofnaðir á það veikum grunni að lánasafnið (Forseti hringir.) var meira og minna ónýtt (Forseti hringir.) og varð ef til vill þess valdandi að ríkisvaldið getur ekki látið afskriftir ganga til fólksins í landinu? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmenn á tímann, hann er naumur, ein mínúta.)