Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 12:18:00 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni þegar hann túlkar grein þingmannsins Bjarna Benediktssonar vegna þess að hann segir þar, sem ég vitnaði reyndar sérstaklega til. Með leyfi forseta, les ég það aftur:

„Það er mat þess sem hér skrifar að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt.“

Þar með er hv. þingmaður að gefa í skyn að það sé persónulegt mat hans sem hljóti að ráða afstöðu til hugsanlegrar refsiábyrgðar. Hann er að nota þetta mat. Hann segir að vísu: Já, það geta verið matskenndar ástæður og það er ekki gott. En það liggur í eðli ráðherraábyrgðarlaganna að um matskenndar ástæður er að ræða. Ég er ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að hans mat eigi að ráða för í þessu af því að mér finnst hann ekki sýna þeim sem komast að annarri niðurstöðu þá virðingu að þeir geti haft rétt fyrir sér í þessu máli. (Gripið fram í.)