Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 12:33:58 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að enginn sem hlustaði á þessa ræðu hafi velkst í vafa um það á hvaða grundvelli hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vill ákæra ráðherrana fjóra. Það er ekki á lagalegum grundvelli. Þetta snýst allt um það sem Lilja Mósesdóttir, flokkssystir hv. þingmanns, upplýsti á frumstigi þessa máls að það yrði að fara fram pólitískt uppgjör við ákveðna hugmyndafræði. Flokksbróðir hv. þingmanns, hv. þm. Björn Valur Gíslason, var reiðubúinn til að víkja til hliðar meginreglum réttarríkisins um hvernig ætti að haga málum varðandi þá sem eru sakborningar í málum og varðandi það með hvaða hætti við tökum ákvörðun um að ákæra. Það þarf ekki mörg vitni til að komast að þessari niðurstöðu þegar menn lesa og hlýða á hv. þingmann og fara síðan yfir þau vinnubrögð sem hann viðhefur í þessum málum. Það er talað um að málsmeðferðin sé eðlileg (Forseti hringir.) og að sérfræðingar segi hitt og þetta. Ég skora á hv. þingmann að beita sér fyrir því að afnema trúnað af gögnum (Forseti hringir.) sem fyrir liggja í þinginu þar sem þessir sérfræðingar sem talað er um tala akkúrat um að sú málsmeðferð sem hv. þingmaður talar fyrir að sé eðlileg (Forseti hringir.) og vönduð standist hvorki ákvæði laga (Forseti hringir.) né mannréttindareglna.