Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 12:59:43 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu getum við ekki ýtt stjórnarskránni í burtu en það geta verið önnur atriði sem eru svo veigamikil, t.d. yfirvofandi hrun, að menn taki ekki þá áhættu. Við erum alltaf að vega og meta meiri hagsmuni og minni og það eru líka hagsmunir að setja heilt ríki á hausinn og brýtur örugglega stjórnarskrá. Ef menn óttast að eitthvað leki sem ekki má leka, ekki undir neinum kringumstæðum, þá er það, að mínu mati, gífurlega stórt mál og getur hugsanlega leitt til þess að menn fari fram hjá þessu ákvæði. Það er stundum gert og hefur iðulega verið gert eins og ýmsir dómar hafa sýnt, dómar mannréttindadómstólsins um öryrkjadóminn o.s.frv.

En varðandi vitnaleiðslurnar og það að kanna það, eins og þessi ráðgjafi sem ég má ekki nefna lagði til — þetta er eins og í Harry Potter, það má ekki tala um það. En þessi ráðgjafi sem ekki má nefna sagði að það ætti að kæra að lokinni athugun á frumgögnum. Þetta var ekki gert þó að það hafi verið gert í pínulitlum mæli. Viðtöl sem þar áttu sér stað voru ekki staðfest. Það var ekki kallað á menn með stöðu sakaðs manns og þeir beðnir um að staðfesta þessi viðtöl sem höfð eru eftir þeim í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það var ekki gert. Þeir vita ekki einu sinni enn að þeir séu með stöðu sakaðs manns, þeim hefur aldrei verið tilkynnt það. Ég tel því að frumgögn hafi ekki verið könnuð. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er ekki frumgagn. Þar er heilmikið af gögnum, heilmiklar upplýsingar, sem nefndin notar í ákærunni. Þingmannanefndin átti svo að sjálfsögðu að tala við fólkið sem hún ætlar að fara að ákæra og tilkynna því: Við ætlum að fara að ákæra ykkur. Við höfum grun um að þið hafið gert eitthvað refsivert. Við höfum grun um að þið hafið framið glæp og við ætlum að ákæra ykkur og við ætlum að spyrja ykkur út í þetta og hitt.