Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 13:03:57 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessu síðasta hefði mátt kippa í liðinn með því að biðja um heimildir til þess hjá Alþingi og menn hefðu fengið það strax.

Varðandi það að menn hefðu átt að setja bankana á hausinn sex mánuðum fyrr. Svona ef-spurningar er eiginlega ekki hægt að ræða. Ef menn hefðu sett bankana á hausinn sex mánuðum fyrr værum við nú að kæra mennina fyrir að hafa sett þá á hausinn, fyrir að hafa sett tilsjónarmann við hliðina á þeim. Það væri þá einhver ákveðinn verknaður sem hægt væri að kæra þá fyrir. (AtlG: Þetta er útúrsnúningur.) Nei, þetta er ekki útúrsnúningur. Við værum núna að kæra þá fyrir að hafa sett íslenskt efnahagslíf á hausinn. Ég er ekki viss um að staðan hefði batnað mikið. Og þó að núverandi ríkisstjórn hafi klúðrað Icesave-málinu eins og hún mögulega gat og ætlaði bara að samþykkja það mál strax óbreytt, þ.e. samninginn, þá eigum við ekki að borga Icesave. Það er bara meinloka hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hrunið hefði ekkert orðið mikið betra eða verra sex mánuðum fyrr. Ég hef enga trú á því, það eina sem skiptir þar máli er Icesave. En menn hefðu orðið sekir um að hafa sett bankana á hausinn, það væri þá alla vega einn atburður sem væri nákvæmlega til staðar. Svona eftiráskýringar að koma og segja að ef menn hefðu gert þetta og ef menn hefðu gert hitt, að vera svona vitur eftir á í fermingarveislum, er gersamlega óþolandi.