Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 13:40:42 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með þær aðgerðir sem menn hefðu átt að grípa til frá miðju ári 2007 og jafnvel á árinu 2008, og þá hvort engar aðgerðir hefðu verið færar og hvort enginn hefði bent á neinar leiðir. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram, reyndar afar lítið tilvitnað, hin svokallaða RÖn-leið, þ.e. leið Ragnars Önundarsonar. Hann skrifaði reyndar fjölmargar greinar í blöð þannig að hverjum og einum landsmanni sem les íslensku hefði getað orðið ljóst að það voru einhverjir sem bentu á aðrar leiðir. Þetta var til að mynda á miðju ári 2008, reyndar fyrst í apríl og síðan aftur seinna um sumarið, þar sem hann benti á ákveðnar leiðir til að takmarka tjón. Enginn virðist hafa tekið það sérstaklega til sín.

Á árinu 2007, svo vitnað sé til rannsóknarskýrslunnar þar sem sagt er að grípa hefði þurft til ýmissa aðgerða til að takmarka stærð hagkerfisins og bankakerfisins, er mynduð samstarfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem ætlar sér að stuðla að því að bankarnir geti haldið áfram að vaxa. Þá spyr maður sig hreinlega, í ljósi þess sem við höfum fjallað um síðustu daga, hvort ekki hefði skort verulega á mat og greiningu áður en menn tóku slíkar ákvarðanir í fyrsta lagi og hvort ekki hefði verið rétt að hafa puttana á púlsinum ef einhver hefði hlustað eftir einhverjum þeim hættumerkjum sem margir bentu á og hefði þá stöðugt endurmat verið á því hvort ekki þyrfti að skipta um stefnu. Eitt er að taka ranga stefnu en annað er að viðhalda henni þangað til allt er hrunið. Þá komum við kannski að því sem við hv. þingmaður erum ósammála um, þ.e. matið á aðgerðum ríkisstjórnar og ráðherra á þessum tíma, þar sem ég tel að hefði átt að grípa til einhverra aðgerða en mér finnst hv. þingmaður telja að það hefði verið ómögulegt og enginn mannlegur máttur hefði getað gert neitt.