Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 16:43:03 (0)


138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér ákæru á hendur, eins og það er kallað, oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún er ekki í mínum flokki en það gildir nákvæmlega sama um hana og Geir H. Haarde, að hún er að sæta óréttlátum réttarhöldum, og sérstaklega í hennar tilfelli er ótrúlegt að í málinu hér í umræðunni komi ekkert fram um að hún hefði með þessi mál að gera. Hún var utanríkisráðherra en hvorki viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra né efnahagsráðherra. Hins vegar virðist mér á umræðunni og andsvari sem ég fór í að hún sé ákærð fyrir að vera formaður síns flokks, fyrir oddvitaræði sem kallað er. Hún er ákærð fyrir að vera formaður síns flokks og það stendur hvergi nokkurs staðar í lögum að það sé bannað. Ég segi nei við því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.