Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Þriðjudaginn 20. október 2009, kl. 17:09:55 (0)


138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

56. mál
[17:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur verður nú kannski ekki mikið um eiginleg andsvör, því ég get tekið undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns. Það er nokkuð ljóst að eitt af mörgu sem brást í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins var einmitt það sem hv. þingmaður benti á, þ.e. að bankar gættu ekki nægilega vel að því að hafa tiltækar upplýsingar um viðskiptavini og þá hefði sérstaklega átt að fylgjast með þeim sem voru með annan fótinn eða jafnvel báða í aflandseyjum og skattaparadísum. Ég get því miður ekki fullyrt það að þetta frumvarp muni breyta mjög miklu um þann veruleika, en ég lofa því að ég mun gera hvað ég get með þá tillögum væntanlega til breytinga á öðrum lögum til þess að leyndarhulunni verði svipt af þeim sem þurftu einhverra hluta vegna að fela sín viðskipti á bak við leyndarhjúp skattaparadísa, hvort sem þær voru Tortóla eða aðrar.