Fyrirvarar við Icesave-samninginn

Fimmtudaginn 22. október 2009, kl. 10:51:52 (0)


138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

fyrirvarar við Icesave-samninginn.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra sem var rétt í þessu að fara yfir það að hinir ýmsu stjórnmálamenn í þessum sal væru mikið að snúast í afstöðu sinni. Við hljótum að draga þá ályktun af þeim orðum að hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin séu afskaplega staðföst. Ég spyr hann þess vegna út í ákveðna hluti.

Við fjölluðum hér frá 5. júní til 28. ágúst um eitt mál, Icesave-málið. Að stórum hluta fór málið fram á þann hátt að meiri hluti þingheims var í rauninni í samningaviðræðum við ríkisstjórnina vegna þess að hún hafði gert samkomulag og reyndi að halda málinu innan ramma samkomulagsins. Niðurstöðuna þekkjum við. Það stóð upp úr hverjum einasta forustumanni ríkisstjórnarinnar, hverjum einasta, að fyrirvararnir rúmuðust fyllilega innan ramma Icesave-samningsins (Gripið fram í.) eins og það var sagt. (Gripið fram í.)

Forustumenn ríkisstjórnar hljóta að hafa sagt satt þegar þeir sögðu að þetta rúmaðist innan ramma samningsins og þeir hljóta að hafa útskýrt það fyrir Bretum og Hollendingum eins og þeir sögðust ætla að gera. Því hlýtur að koma mjög á óvart að við séum aftur að fjalla um þetta núna.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Voru forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki að segja satt? Við vorum í nokkra mánuði að fjalla bara um þetta mál með öllum bestu sérfræðingum landsins og það var fullyrt að þetta rúmaðist (Forseti hringir.) innan samningsins. Ég vil að hæstv. ráðherra upplýsi hvort þjóð og þingi hafi ekki verið sagt satt.