Fyrirvarar við Icesave-samninginn

Fimmtudaginn 22. október 2009, kl. 10:54:10 (0)


138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

fyrirvarar við Icesave-samninginn.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherrar hafi lýst þessu samkomulagi eftir sínum besta skilningi og bestu vitund. Ég rifja það upp að ég sagði sjálfur úr þessum ræðustól að með skapandi hugsun væri hægt að sýna fram á að allir fyrirvararnir rúmuðust innan laganna. Ég notaði þetta orðalag, og hv. þingmenn og fleiri notuðu það sem tilefni til að fara með flím og spott um þann ráðherra sem stendur hér aumur enn þá. Um málið að öðru leyti er það að segja að ég lít svo á að það frumvarp sem við erum að fara að ræða á eftir bregði frá því sem samþykkt var í sumar að einu leyti, þ.e. gert er ráð fyrir því að það sem kann að standa eftir árið 2024 verði líka sett undir ríkisábyrgð. Þá verður hins vegar að hafa það í huga að hv. þingmenn sömdu efnahagslega fyrirvara sem enn þá halda. Þeir gerðu ráð fyrir því [Kliður í þingsal.] að öll upphæðin yrði greidd fyrir 2024 miðað við efnahagslegar forsendur Seðlabanka Íslands. Nú blasir það við eftir nýjar upplýsingar, nýtt mat og nýjan samning milli gamla og nýja Landsbankans að endurheimturnar sem áður voru taldar vera með varfærnislegu mati 75% verða 90%. [Kliður í þingsal.] Ég held sjálfur að yfir 95% af höfuðstólnum endurheimtist. (Gripið fram í.)

Þetta er það sem ber frá. Ég get hins vegar fært rök fyrir því, og vona að hæstv. fjármálaráðherra geri það líka á eftir, að fyrirvararnir sjálfir eru styrktir. Sérstaklega á það við um þann fyrirvara sem kallaður er eftir Ragnari Hall og sömuleiðis það sem kallað hefur verið lagalegur fyrirvari I og ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki skilið þetta (Gripið fram í.) verða þeir bara að lesa frumvarpið svolítið betur. (Forseti hringir.) Ég gruna suma þeirra um að tala um það án þess að hafa kynnt sér málið. Það hefur náttúrlega aldrei gerst áður um stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Ekki hjá þér?) Aldrei. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)