138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Hér er um að ræða mál sem þingheimur er gagnkunnugur en engu að síður er gagnlegt að rifja aðeins upp forsögu málsins.

Svo seint sem í maí 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrunið sem hér varð og löngu eftir að áhyggjur höfðu farið vaxandi bæði innan lands og erlendis af því að íslenska bankakerfið stæði veikum fótum, hóf Landsbankinn að safna fé inn á Icesave-reikninga í Hollandi. Tókst á ótrúlega skömmum tíma að hlaða upp á þá reikninga aldeilis ótrúlegum fjárhæðum, eða 1 milljarði 674 millj. 285 þús. og 671 evru. Þetta voru dýrkeyptir mánuðir fyrir íslenskt þjóðarbú og bættust þessar upphæðir við þær miklu upphæðir sem áður höfðu safnast inn á sambærilega reikninga í Bretlandi, en þar voru þegar mest lét 4 milljarðar 526 millj. 988 þús. og 847 pund.

Þetta gerir á núverandi verðlagi um 1.213 milljarða íslenskra króna sem safnast höfðu á innlánsreikninga íslensks banka í útibúum hans sem á grundvelli hins evrópska réttar og tilskipunarinnar eru nákvæmlega eins hvort sem þau eru í London eða í Breiðholtinu. Þetta gerði hann sem íslenskur banki á grundvelli íslenskra starfsleyfa og undir eftirliti íslenskra eftirlitsstofnana.

Áhyggjur í þessum löndum fóru vaxandi og það voru samskipti við íslensk stjórnvöld. En skemmst er frá því að segja að bankarnir sjálfir, m.a. með auglýsingum sínum þar sem þeir kynntu sparireikningana, fullvissuðu viðskiptavinina um að ekkert væri að óttast. Íslensk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama. Ábyrgð hins íslenska tryggingarsjóðs var meira að segja auglýst á heimasíðu Icesave. Einnig var með bréfaskriftum, kynningarfundum og ýmsum öðrum hætti fullyrt að ekkert væri að óttast þegar kæmi að umgjörð og stöðu íslensku bankanna. Yfirlýsingar ráðamanna opinberlega ítrekuðu enn að ekkert væri að óttast og áréttuðu ásetning sinn að standa að baki tryggingarsjóðnum.

Eftir hrun bankanna bönkuðu stjórnvöld viðkomandi ríkja upp á og spurðu hvernig Íslendingar hygðust standa við skuldbindingar sínar á grundvelli innlánstryggingakerfisins. Íslensk stjórnvöld reyndu að bera fyrir sig lagaóvissu um umfang ábyrgðarinnar eða innlánstryggingarinnar en það er skemmst frá því að segja að á það var ekki hlustað, enda var málflutningurinn ómarkviss og ýmist slegið úr eða í. Íslensk stjórnvöld einangruðust algerlega á örfáum dögum með það sjónarmið sitt að eitthvað annað kæmi til greina en að íslenska ríkið ábyrgðist og stæði á bak við innlánstryggingarsjóðinn og tryggði lágmarksinnstæðurnar.

Það bætti ekki úr skák og gerði málsástæður íslenskra stjórnvalda ekki auðveldari að setning neyðarlaganna var auðvitað mjög tortryggð af gagnaðilum okkar og bent á þá mismunun sem upp væri komin milli innlendra viðskiptavina bankakerfisins og erlendra. Enda fór það svo á undraskömmum tíma, til að gera langt mál stutt tímans vegna, að allar tilraunir Íslendinga til að komast undan því að axla fulla ábyrgð á innlánstryggingunni upp að þessum upphæðum urðu árangurslausar og menn játuðu sig sigraða í áföngum í október og nóvember í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að af hálfu íslenskra stjórnvalda var lántaka hjá Bretum og Hollendingum til að borga út lágmarksfjárhæð reikninganna í reynd samþykkt í október og nóvember 2008. (Gripið fram í.) Það má velta því fyrir sér hversu litlu munaði að gengið væri frá endurgreiðslunum líka í desember eða janúarmánuði eins og stefnt var að og reyndar heitið að gera í samstarfsyfirlýsingunni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn síðla í nóvember. Þá var eins og kunnugt er bætt inn „letter of intent“ í samstarfsyfirlýsinguna, sérstöku ákvæði til að hnykkja á ábyrgð Íslands í þessum efnum eins og þar segir, með leyfi forseta, og finna má á bls. 13 í greinargerðinni:

„Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar.“ (Gripið fram í: Nákvæmlega.)

Þarna er í raun og veru verið að segja og síðan undirritað af seðlabankastjóra og fjármálaráðherra þáverandi að það eina sem eftir er í málinu sé að semja um lánsskilmálana á lánunum sem Bretar og Hollendingar höfðu boðist til að veita okkur og íslensk stjórnvöld þegið í kjölfar þess að þeir gerðu upp innstæðurnar og eignuðust kröfu á okkur í staðinn.

Áður höfðu Íslendingar undirritað minnisblað með Hollendingum þar sem lofað var að ganga frá málinu á þessa leið og fá til þess lán til 10 ára á 6,7% vöxtum, afborgunarlaust fyrstu þrjú árin, og vaxtagreiðslur hefðu þá hafist þegar á þessu ári. Afborgunin á fjórða árinu þegar afborgun hæfist á vexti og höfuðstól hefði verið langt yfir 100 milljarðar króna.

Af þessu tilefni sagði þáverandi fjármálaráðherra, með leyfi forseta, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 11. október á síðasta ári:

„Við staðfestum samkomulag sem hefur orðið á milli okkar um það að við greiðum lágmarksskuldbindinguna til þeirra sem áttu innlánin og stöndum við okkar skuldbindingar. Þeir hins vegar aðstoða okkur við þetta með því að veita okkur lán svo að við getum gert þetta núna og þetta mun verða greitt út í gegnum seðlabankann í Hollandi til þess að einfalda málin og þar geta hollenskir sparifjáreigendur náð í sínar tryggingar.“

Hefði verið gengið frá málinu með sambærilegum hætti við Breta, sem var í undirbúningi, samanber fréttir breska stórblaðsins The Financial Times og fréttatilkynningar stjórnvalda og yfirlýsingar meðal annars forsætisráðherra á þessum tíma, held ég að menn geti velt því aðeins fyrir sér hver staðan væri nú með lán til þetta skamms tíma á þetta háum vöxtum og aðeins með þriggja ára afborgunarleysi.

Alþingi afgreiddi svo þingsályktunartillögu 5. desember 2008 þar sem það fól framkvæmdarvaldinu að leiða málið til lykta með samningum. Þar er það rækilega rökstutt bæði í greinargerð þingsályktunartillögunnar, í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar og í framsöguræðu þáverandi formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að það séu ótvíræðir kostir við það í stöðunni að fara samningaleiðina og annað sé ekki í boði. Sagði hv. þingmaður meðal annars, með leyfi forseta, í 1. umr. málsins:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.

Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin …“

Ég endurtek, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin enda eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag. (Gripið fram í: Eðlilega.) Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna“ — sagði hv. þm. Bjarni Benediktsson 28. nóvember sl. — „mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar (BjarnB: Annað kom í ljós. Annað kom í ljós.) og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.“

(BjarnB: Annað kom í ljós. … tapað málinu.) Hér er vitnað orðrétt, virðulegi forseti, í þingtíðindi.

Ný samninganefnd var síðan í framhaldi af stjórnarskiptum og með vísan til fyrirmæla Alþingis um að leiða málið til lykta með samningum skipuð í febrúarmánuði og hóf hún fljótlega samskipti við aðila í þeim efnum. (Gripið fram í.) Samningur sá sem síðan lá fyrir og undirritaður var 5. júní fól í sér þá framþróun í málinu frá því sem þarna var uppi í fyrsta lagi að það náðist lán til mun lengri tíma en áður var talað um eða til 15 ára í stað 10 ára og á mun hagstæðari kjörum eða með 5,55% föstum vöxtum í stað 6,7%. Auk þess eru innborganir heimilar hvenær sem er án kostnaðar.

Í öðru lagi er það lán með sjö ára afborgunarleysi og án greiðslu á vöxtum hvað varðar ríkissjóð Íslands og íslenska ríkið og er það því varið fyrir útgjöldum af þessum sökum í sjö ár.

Í þriðja lagi er þannig um málið búið að eignir Landsbankans ganga jafnóðum inn á höfuðstólinn og lækka hann og vexti sem greiddir verða. Þetta skapar jafnframt tíma til þess að hámarka eignir Landsbankans og dregur úr hættunni á því að menn lendi í þeirri stöðu að þurfa að selja eignir á óhagstæðum tíma fyrir lægra verð en von er til að innheimtist af þeim síðar. Samningur um þetta var undirritaður hinn 5. júní og með þessum samningi sem síðar var lagður fyrir Alþingi voru lögð drög að því að leiða málið til lykta.

Lagafrumvarpið sem kom fram á þingi 30. júní sl. fékk ítarlega umfjöllun bæði utan þings og innan. Í meðförum Alþingis tók frumvarpið umtalsverðum breytingum og var að lokum samþykkt heimild til veitingar ríkisábyrgðar með fyrirvörum í formi forsendna fyrir veitingu ríkisábyrgðar og efnahagslegra og lagalegra viðmiða. Til þess að ríkisábyrgðin gengi í gildi varð að kynna breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau urðu að fallast á þá.

Í samræmi við ákvæði laganna voru breskum og hollenskum stjórnvöldum kynntir þeir fyrirvarar sem Alþingi hafði samþykkt. Sú kynning fór fram með óformlegum hætti í samtölum og á fundum í Haag, London og Reykjavík en jafnframt sendi forsætisráðherra starfsbræðrum sínum í löndunum tveimur bréf þar sem afstaða Alþingis var útskýrð og óskað eftir fundi stjórnvalda ef á þyrfti að halda. Þá átti utanríkisráðherra fundi með starfsbræðrum sínum í New York og fjármálaráðherra með sínum starfsbræðrum í Istanbúl.

Þótt Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir að fallast á fyrirvara Alþingis að verulegu leyti varð ljóst að einhverju þyrfti að breyta í framsetningu og efni. Fljótlega kom fram sú tillaga breskra og hollenskra stjórnvalda að réttast væri að gera sérstaka viðaukasamninga sem fælu í sér samþykki við fyrirvara Alþingis og breytingar á fyrirliggjandi lánasamningum. Þannig mætti tryggja að lánasamningarnir stæðu sjálfstætt og enginn vafi léki á um sjálfstætt gildi þeirra. Fulltrúar Íslands í þessum viðræðum gerðu fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir þessari afstöðu breskra og hollenskra stjórnvalda um miðjan september síðastliðinn ásamt því að forustumönnum stjórnarandstöðu var kynnt hið sama og fleiri aðilum.

Niðurstaðan málsins varð sú að loknum miklum viðræðum að gera viðaukasamning og með þeim hætti að samrýma að mestu efni þeirra og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laga nr. 96/2009. Að hluta til yrði efni 3. og 4. gr. laganna viðhaldið í lögum. Af þessu leiðir að leggja þarf fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 til að tryggja þetta samræmi og fyrir því er nú mælt hér.

Það er mat ríkisstjórnarinnar að allt meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga og því sem ekki felst í samningunum sé haldið til haga í breyttum lögum og í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra landanna þriggja. Litið er svo á að lengra verði ekki komist og nauðsynlegt sé að ljúka málinu. Hinir endanlegu samningar eru að mati ríkisstjórnarinnar vel viðunandi lausn á einni erfiðustu milliríkjadeilu Íslands á lýðveldistímanum sem jafnframt má telja að hafi verið eitt erfiðasta, ef ekki það erfiðasta verkefni sem íslensk stjórnmál hafa tekist á við í háa herrans tíð.

Alþingi getur með réttu glaðst yfir því að vinna sumarsins hefur sett mark sitt á endanlegan frágang málsins með afdráttarlausum hætti. Búið er um málið með mun meira efnahagslegu öryggi en áður var.

Samningarnir voru undirritaðir sl. mánudag með fyrirvara um samþykki Alþingis af fulltrúum fjármálaráðuneytisins og tryggingarsjóðsins annars vegar og fulltrúum ríkisstjórna Bretlands og Hollands hins vegar. Helstu efnisatriði viðaukasamningsins eru eftirfarandi:

Frá og með 2016 verða takmarkanir á árlegum afborgunum og byggja þær á sambærilegum viðmiðunum og ákveðin voru með 3. gr. laga nr. 96/2009, þ.e. miðað er við að á tímabilinu 2017–2023 fari heildargreiðslur til beggja landanna ekki yfir 6% af aukningu vergrar landsframleiðslu frá árinu 2008. (Gripið fram í: … vexti?) Vextir verða þó alltaf greiddir (Gripið fram í: Já.) þótt þeir kunni að fara yfir þessa viðmiðun, og munu því ekki hækka höfuðstól lánanna.

Til þess að síður reyni á hámark greiðslna fallast Bretar og Hollendingar á að Íslendingar geti hvenær sem er ákveðið einhliða að fjölga gjalddögum afborgana úr 32 á átta árum í 56 gjalddaga á 14 árum. Leiði lenging greiðslutímans ásamt því þaki sem sett er á árlegar greiðslur til þess að ekki takist að greiða upp eftirstöðvar þess lengist greiðslutíminn enn frekar, eða um fimm ár í senn. (Gripið fram í.)

Óbreytt er að Ísland á eftir sem áður kost á því að greiða meira inn á lánið en fastbundið er.

Fallist er á að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta leiti úrskurðar þar til bærra aðila á því hvort kröfur sjóðsins gangi við úthlutun úr búi Landsbanka Íslands hf. framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Komist íslenskur dómstóll að þeirri niðurstöðu, að fengnu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins og sem ekki er í ósamræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla, falla sjálfkrafa niður þau ákvæði lánasamninganna að endurheimtur úr þrotabúinu skiptist á tryggingarsjóðina í hlutfalli við kröfur þeirra. Skiptingin verður þá í samræmi við niðurstöðu dómstóla og sama á við um það ef slitastjórn fellst á slíka forgangskröfu og enginn aðila krefst dómstólameðferðar.

Staðfest er að ákvæði lánasamninganna frá 5. júní sl. um takmörkun friðhelgisréttinda taki ekki til eigna sem njóti friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, eigna Seðlabanka Íslands og eigna á Íslandi sem nauðsynlegar eru fyrir eðlilega starfsemi Íslands sem fullvalda ríkis.

Staðfest er að lánasamningarnir hafi ekki áhrif á umráð ríkisins yfir náttúruauðlindum landsins, nýtingu á þeim og fyrirkomulag á eignarhaldi yfir þeim.

Staðfest er að lánasamningarnir hafi verið gerðir á grundvelli svokallaðra Brussel-viðmiðana.

Til þess að lánasamningarnir taki gildi, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 96/2009.

Þetta frumvarp er lagt fram í því skyni að samræma efni lánasamninganna eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, þeim lögum sem gilda eiga um heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð vegna lána sem tryggingarsjóðurinn hefur tekið hjá breskum og hollenskum yfirvöldum. Það hefur þann tilgang annars vegar að tryggja að ríkisábyrgðin verði óskoruð og þess gerist ekki þörf að túlka ákvæði samninganna með hliðsjón af þeim lögum sem heimila fjármálaráðherra að veita tryggingarsjóðnum ríkisábyrgð. Hins vegar er tilgangur laganna að viðhalda fyrri fyrirvara um að Ísland hafi ekki talið sig vera lagalega skuldbundið til að veita ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins og að íslenska ríkið áskilji sér rétt til að leita lagalegrar úrlausnar í því efni og að efna til viðræðna við viðkomandi aðila, gefi slík úrlausn eða önnur hliðstæð tilefni til. (Gripið fram í.)

Talið var skynsamlegast og skýrast að leggja til í frumvarpi þessu að 1.–4. gr. gildandi laga nr. 96/2009 yrðu felldar úr gildi. Í stað þeirra greina er lagt til að bætt verði við nýju heimildarákvæði fyrir fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lánasamningunum, samanber 1. gr. frumvarpsins. Í þessu felst að fyrirvarar við ríkisábyrgðina verða ekki í lögum nr. 96/2009 heldur mun meginefni þeirra koma fram í lánasamningunum frá 5. júní 2009 eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum. (Gripið fram í.)

Samhliða þessu er lagt til að bætt verði við nýrri 2. gr. þar sem sá skilningur er áréttaður að ekkert í lögunum feli í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ef tilteknir úrlausnaraðilar fallast á þann skilning að íslenska ríkið, eða annað EES- eða ESB-aðildarríki í sambærilegu máli, hafi ekki haft slíka skyldu skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna og eftir atvikum ESB eða stofnanir EES.

Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins falla 3. og 4. gr. gildandi laga úr gildi en í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að 5. gr. laganna um endurskoðun lánasamninganna verði styrkt með hluta þeirra ákvæða sem áður voru í 3. gr.

Þegar framangreint er metið er ljóst að meginefni fyrirvara laganna kemur nú fram í samningunum sjálfum. Þýðing þess að framangreind ákvæði séu einnig í lögum er ekki fyrir hendi og áhrif af brottfelling greinanna eru því takmörkuð. (Gripið fram í.)

Þriðji liðurinn í samkomulagi um lausn með framangreindum hætti, til viðbótar við breyttan samning og breytt lög, er sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra Íslands, Bretlands og Hollands sem birt var síðastliðinn mánudag þegar samningurinn hafði verið undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og frumvarp það sem ég mæli hér fyrir hafði verið lagt fram.

Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að Bretland og Holland hafi fallist á þá efnahagslegu skilmála sem settir voru með lögum frá 28. ágúst og að Ísland hafi endurnýjað skuldbindingar sínar (Gripið fram í.) til að ábyrgjast skuldbindingar tryggingarsjóðsins án þess að í því felist viðurkenning á að lagaleg skuldbinding hafi verið til staðar.

Enn fremur lýsa löndin yfir vilja sínum til þess að taka upp viðræður við Ísland um framkvæmd lánasamninganna og ef upp koma tilvik sem gefa tilefni til viðræðna og viðbragða. Með þessu náðist sá mikilvægi áfangi að tryggja með pólitískri yfirlýsingu að viðræður fari fram ef þróun mála víkur verulega frá því sem nú er ætlað og ef ófyrirséðir atburðir verða.

Þetta er mjög mikilvægt í tengslum við hina efnahagslegu fyrirvara og endurskoðunarákvæði samninganna og ekki er síður mikilvægt að þetta gefur áskilnaði laganna um réttarstöðu landsins aukið gildi og opnar leið til viðræðna gefi niðurstaða lagalegs úrlausnaraðila tilefni til.

Í yfirlýsingunni lýsa fjármálaráðherrar Bretlands og Hollands einnig yfir stuðningi við árangursríka endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands (Gripið fram í.) sem ekki verður túlkað á annan hátt en þann að sú endurskoðun geti farið fram án þess að meðferð samninga milli þessara aðila hafi þar frekari áhrif.

Það er enginn vafi á því að það er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að fá fram lyktir þessa máls. Það er engu okkar neitt gleðiefni að það skuli þurfa að verða svo að á íslenskan þjóðarbúskap lenda miklar byrðar út af þessu máli. En sá valkostur að komast með einhverjum hætti undan því er ekki í boði. Það held ég að öllum hljóti að vera ljóst að því miður eigum við engan annan kost en að takast á við þetta sem hluta af þeim heildaráföllum sem óráðsía, hagstjórnarmistök og glæframennska í fjármálum hafa leitt yfir okkur sem þjóð. Þetta er hluti af því. Þetta er hluti af herkostnaðinum sem við sitjum uppi með vegna þess hvernig menn stóðu að málum á löngu árabili. (Gripið fram í: Þetta er uppgjöf.) (Gripið fram í.)

Og það er jafnframt ömurlegt til þess að vita að menn höfðu jafnmörg tækifæri og á jafnlöngum tíma og raun ber vitni (Gripið fram í.) til að taka í taumana, til að afstýra þessum slysum (Gripið fram í: … breyta reglunum hjá EES.) en það var ekki gert. (Gripið fram í: … Evrópusambandsins sem þú vilt ganga í.) (Gripið fram í.) Það var ekki gert. Og þá kemur spurningin, frú forseti, hvort við Íslendingar, íslensk stjórnvöld, Alþingi, ríkisstjórn, eigum að nálgast þetta þannig að við séum ábyrgðarlaus með öllu í þessu máli. Er það frambærilegur málflutningur? (Gripið fram í: Reglurnar segja það.) Horfir hann ekki fram hjá fjölmörgum staðreyndum málsins, þeim að við innleiddum þetta í íslenskan rétt með lögmætum hætti? Hann horfir líka fram hjá því að við höfðum ótal tækifæri til að taka í taumana en við gerðum það ekki. Og við skulum ekki gleyma okkur í núinu, Icesave-málið spannar margra ára tímabil og er brennimark tiltekinna aðila á komandi kynslóðir fyrir stjórn hans í efnahagsmálum.

Sá sem hér stendur varaði ásamt mörgum félögum sínum við einkavæðingu allra ríkisbankanna á sínum tíma (Gripið fram í.) og hvað vildum við meðal annars? Halda eftir Landsbankanum sem ríkisbanka. Við reyndumst hafa rétt fyrir okkur, (Gripið fram í.) þetta varð að ógæfuleiðangri. Og það má velta því fyrir sér hversu mikið betur við værum stödd og án Icesave-málsins ef þjóðin hefði átt sinn Landsbanka áfram eftir árið 2002. Þar bera margir mikla ábyrgð og sérstaklega þáverandi formenn þáverandi ríkisstjórnarflokka, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Það var heldur ekki hlustað á varnaðarorð og tillögur hér á Alþingi um að þvinga bankana til að aðgreina betur sína hefðbundnu bankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi og brask. (Gripið fram í.) Einnig að því leyti værum við betur stödd (Gripið fram í.) ef hefðbundinn íslenskur banki hefði ekki getað farið í þessa för. Ég hygg að hæstv. viðskiptaráðherra hafi orðað þetta einna best manna þegar hann líkti þessu við sjóræningjaskip sem var sent í víking.

Seðlabankinn hefði líka getað lagt mikið af mörkum ef hann hefði hækkað bindiskyldu slensku bankanna á erlend útibú þeirra þegar ofvöxtur þeirra keyrði úr hófi fram í staðinn fyrir að lækka hana. Fjármálaeftirlitið þarf heldur betur að líta í eigin barm sem stofnun, sögu sinnar og aðildar vegna í þessu máli. Samskipti þess svo seint sem í september við hollensk yfirvöld eru með endemum (Gripið fram í.) í ljósi þess sem síðan hefur komið fram, að íslenskum stjórnvöldum og íslenskum bankamönnum var þetta löngu ljóst þegar þarna var komið. (Gripið fram í.) Það verður heldur ekki horft fram hjá því hvaða afleiðingar það hefur í för með sér að hafna því að leysa málið, að koma því út úr heiminum að komast áfram með hlutina.

Þá stendur eftir spurningin, virðulegi forseti, sem auðvitað hefur mikið verið rædd: Ræður íslenska þjóðarbúið við skuldbindingarnar sem líklegar eru til að falla á það á árunum 2016–2024 (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Ekki með þessa …) með þeim horfum sem núna eru? (Gripið fram í: Nei.) Þetta er vissulega stór spurning, frú forseti, en sem betur fer — og maður hefði haldið að það lægi aðeins betur á einum og einum manni í þessum sal — eru horfur batnandi í þeim efnum. Þær eru það meðal annars vegna þess að nú horfir betur með endurheimtur í bú Landsbankans. (Gripið fram í: Barbabrella?) Það horfir líka betur vegna þess (Gripið fram í.) að það er ákaflega dýrmætt að fá þau sjö ára tímabil varin af útgjöldum þessa máls sem við þurfum sannarlega á að halda til þess að koma hagkerfi okkar aftur á kjöl og hefja hér uppbyggingu og endurreisn í þjóðarbúskapnum þannig að við verðum sem best í stakk búin á komandi árum og áratugum til að ráða við þessar skuldbindingar okkar jafnt sem aðrar. (Gripið fram í.)

Nýlega bárust þær fréttir að nýtt mat á eignum gamla Landsbankans gefi til kynna að þær muni duga til þess að greiða niður allt að 90% af höfuðstól lánsins. (Gripið fram í.) Það gæti þýtt að heildarskuldbindingin vegna Icesave yrði að núvirði, með vöxtum, 183 milljarðar króna miðað við árslok 2009, eða 174 milljarðar miðað við upphaf lánstíma. Það mundi einnig þýða að líkur á því að ekki náist að greiða allt lánið fyrir árslok 2024 eru hverfandi. Þessa útreikninga hafa fleiri en Seðlabankinn glímt við undanfarna daga og komist að svipuðum niðurstöðum, eins og ein greiningardeildin hefur gert, þó þannig að innheimtist eignir í búið hraðar og/eða að aðstæður sköpuðust til að selja verðmætar eignir framarlega á tímabilinu og inngreiðslur yrðu meiri en ella á fyrri hluta sjö ára tímabilsins, gæti þessi reikningur orðið enn lægri.

Það er sannfæring mín eftir að hafa skoðað þessa hluti að það er ekki þetta sem er alvarlegasta áhyggjuefnið í augnablikinu. (Gripið fram í.) Það er glíman við að komast í gegnum erfiðleikana (Gripið fram í.) á næstu missirum sem mun öllu (Gripið fram í.) ráða (Gripið fram í.) um það hvernig okkur vegnar. Fyrst þurfum við að komast í gegnum þá til að geta farið að hafa áhyggjur af því hvar við stöndum árið 2016 eða 2024. (Gripið fram í: Fresta vandamálinu.)

Það verður erfitt. (Gripið fram í.) Það er okkur öllum ljóst og það er þungbært að þurfa að sætta okkur við þessa niðurstöðu en hún er óumflýjanleg með einum eða öðrum hætti. Og það ættu þeir sem voru búnir að gera það upp við sig og viðurkenndu það og töluðu fyrir því í október, í nóvember, í desember á síðasta ári, að geta viðurkennt að minnsta kosti núna. (BjarnB: Hvað sagðir þú þá? Við …) Við komumst ekki undan þessu máli.

Samningarnir gera ráð fyrir því að ábyrgðin verði veitt fyrir 30. nóvember nk. Ég vona að við þurfum þó ekki að taka okkur allan þann tíma. Efnisatriði þessa máls eru þaulkunnug og ákaflega æskilegt ef Alþingi gæti hraðað afgreiðslu þessa máls bæði þess sjálfs vegna sem og vegna allra þeirra annarra brýnu verkefna sem hér verður við að fást fram að jólum.

Ég nefni líka þá dagsetningu að 10.–11. nóvember næstkomandi verður haldinn fundur fjármálaráðherra ESB- og EFTA-ríkjanna. Slíkur fundur fyrir ári kom mjög við sögu þessa máls og það væri að mörgu leyti jákvætt og traustvekjandi ef fyrir þann fund lægi fyrir að Íslendingar hefðu lokið afgreiðslu málsins með farsælum hætti.

Ég leyfi mér því enn að vona að Alþingi geti, með vandaðri málsmeðferð í ljósi þess hversu þaulrætt og kunnugt málið er, haft ofangreindar dagsetningar í huga. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég bjó ekki til þetta mál. (Gripið fram í.) Staðreyndin sem ýmsir reyna að fela nú er sú að hér er í raun verið að fjalla um hvernig takast á við að endurgreiða lán sem íslensk stjórnvöld gengust undir að taka í nóvember- og desembermánuði sl. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: …ósatt …) Það er hin rétta lýsing á þessu máli. Um það má lesa í fjölmörgum fréttatilkynningum og yfirlýsingum að þá er málið komið í þann farveg. (Gripið fram í: Þú skrifaðir undir samninginn …)

Alþingi fól svo ríkisstjórn eða framkvæmdarvaldinu með þingsályktunartillögu að semja um greiðslur á þeim skuldbindingum sem gengist hafði verið undir. Það er veruleiki þessa máls. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Ég fékk það hlutskipti að reyna að greiða úr þeirri herfilegu stöðu sem þetta mál var komið í. (Gripið fram í.) Ég hef lagt mig allan fram við það … (Gripið fram í.) Nú bið ég hv. þingmenn að hafa hljóð í augnablik. Þeir geta fengið hér orðið á eftir. Ég hef lagt mig allan fram um að gera það eins vel og ég get og ég hef góða samvisku gagnvart mínum þætti þessa máls. Ég vil einnig nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa lagt mikla vinnu af mörkum til að koma þessu máli í eins farsæla höfn og í boði er. Margir hafa sætt ómaklegri og ódrengilegri gagnrýni vegna þess að þeir hafa verið að reyna að leggja sitt af mörkum, til þess kvaddir, vegna erfiðra aðstæðna á Íslandi. (Gripið fram í.)

Ég trúi því að það sé rétt fyrir Ísland að gera það sem við erum að gera. Það skiptir okkur öllu máli að komast í gegnum erfiðleikana, endurheimta traust og trúverðugleika þannig að við getum snúið okkur að því (Gripið fram í: … komandi kynslóðir …?) að skapa landinu (Forseti hringir.) og fólkinu sem hér býr þá framtíð sem það á skilið. Sú framtíð verður ekki sköpuð með upphrópunum (Forseti hringir.) eða frammíköllum. (Gripið fram í.)