138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var ýjað að því margsinnis að íslensk stjórnvöld hefðu samþykkt Icesave-samningana síðasta haust. Það er rangt. Það var meira að segja komin samþykkt fyrir því í fjárlaganefnd að fá ekki hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fyrir fjárlaganefnd til þess að skýra frá þessu máli, hvað þá fyrrverandi seðlabankastjóra, Davíð Oddsson.

Það sem mig langaði til þess að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að er: Hver er sá herkostnaður sem íslenska ríkið hefði þurft að þola ef við hefðum fengið að fara með þetta mál fyrir dóm? Ég get ekki betur séð en að staða okkar nú sé miklu verri en ef við hefðum grúttapað málinu fyrir dómstólum, ef okkur hefði verið hleypt fyrir þá. Hvað herkostnað er hæstv. fjármálaráðherra að tala um?