138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hlustum nú á söguskýringar Framsóknarflokksins á þeirri atburðarás sem átti sér stað varðandi Icesave og þar talar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson um að hann hafi ítrekað þurft að leiðrétta rangfærslur. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga bara sögunnar vegna að þegar málið kom til þingsins í byrjun júní var beðið með að setja það fyrir fjárlaganefnd. Það lá fyrir frá upphafi að málið átti að koma fram með fullbúnum gögnum og það lá fyrir að kallað yrði eftir öllum upplýsingum, þýðingum á skjölum, það var gert allan tímann og þurfti ekki atbeina Framsóknarflokksins til þess. (PHB: Það þurfti að berjast fyrir því.)

Varðandi leiðréttingu á rangfærslum langar mig líka að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir hvernig málinu átti að ljúka 2024. Þó að hv. þingmaður hafi ekki samþykkt fyrirvarana stóð það aldrei til í afgreiðslu fjárlaganefndar og þeirri sátt sem þar náðist að greiðsluskylda félli niður árið 2024. (Gripið fram í.) Það get ég sagt hér sem formaður fjárlaganefndar og sá sem stýrði vinnunni að það stóð aldrei til. (Gripið fram í.) Það kom aftur á móti fram í ræðum hv. þingmanna frá Sjálfstæðisflokknum þar sem þeir bættu þessari skýringu við. Það var samþykkt að fara ætti að í viðræður og ræða um framhaldið hvort um yrði að ræða lengingu og það er eðlismunur á því eða hvort fella átti það niður. Og ein af ástæðunum fyrir því að menn fóru að vefengja þetta hjá okkur var sú að þingmenn töluðu glannalega í þinginu og voru með yfirlýsingar um að þeir ætluðu ekkert að borga þegar þar að kæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað áttu framsóknarmenn við þegar þeir sögðu að menn ætluðu að standa við skuldbindingar sínar? Hvað áttu þeir við með því? Þannig hafa þeir talað allan tímann þó að þeir hafi unnið með öðrum hætti. (Gripið fram í.)

Mig langar líka að heyra hver mundi verða ýtrasta krafa Breta og Hollendinga ef svo ólíklega vildi til að þeir kæmu hér fyrir héraðsdóm og reyndu að sækja sína peninga. Hv. þingmaður er lögmaður og veit það betur en ég hvaða kröfur þeir mundu leggja fram (Forseti hringir.) varðandi endurgreiðslur.

Í þriðja lagi: Hvaða dómstóll er það sem getur fjallað um mál eða hvert geturðu kært (Forseti hringir.) mál ef ágreiningur kemur upp fyrir héraðsrétti? Hvert er hlutverk EFTA-dómstólsins þar?