138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held það hafi verið ríkisstjórnin sem fullyrti í dag að það skipti engu máli þótt íslenska ríkið færi niður í ruslflokk. En gott og vel.

Þessar fullyrðingar um að ekki sé hægt að gera neitt annað af því ekki sé búið að ganga frá Icesave — bíddu, er það ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem neyðir Íslendinga til þess að halda stýrivöxtum svona háum? Er það ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefur komið í veg fyrir að við getum aflétt þeim gjaldeyrishöftum sem eru í gangi? Eru það ekki fullyrðingar sem komið hafa frá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar? (Gripið fram í: Nákvæmlega.) (Gripið fram í.)

Við höfum verið að tala um að við þurfum að fara að endurskoða samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég held að það sé morgunljóst að sá veruleiki sem blasti við okkur hér fyrir ári síðan er allt annar í dag. Við þurfum að endurskoða þessa áætlun, ég held að það sé alveg á hreinu.

Hinn pólitíski veruleiki — eins sorglegt og það nú er höfum við aldrei gert gangskör að því að kynna málstað Íslendinga erlendis. Það sáum við þegar við fórum til Noregs að Norðmenn áttuðu sig ekki á því að þeir væru í rauninni að taka afstöðu með Bretum og Hollendingum í deilu sem á að sjálfsögðu að leysa fyrir dómstólum. Það var svolítið sláandi þegar við stjórnarandstöðuþingmennirnir tveir fórum til Noregs að finna að við værum þeir fyrstu sem upplýstu nágrannaþjóðir okkar um hinn blákalda veruleika. (Gripið fram í.) Það er kannski þess vegna sem við höfum sagt að þar væri hugsanlega opin leið, það þyrfti að sækja formlega um, með beiðni þar um, við höfum ekki sagt neitt annað en það. En af hverju var það slegið út af borðinu? Jú, vegna þess að þegar átti að neyða Icesave aftur í gegnum þingið vildu menn geta sagt að það væri engin önnur leið. (Forseti hringir.) Það var svo óþægilegt að fatta að það væri kannski önnur leið.