138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum nú ekki tala eins og hæstv. ráðherra, jafnhógvær og hann er, sé bara gestur hér á þinginu, hann er forustumaður í ríkisstjórn. Við vitum að ríkisstjórnin er búin að stilla sig saman og augljóslega hefur hún gefið ákveðinn kúrs varðandi hvernig á að klára þetta mál. Ég held að málið hafi mjög gott af umræðu, ég held það hafi mjög gott af því að farið sé vel og nákvæmlega yfir það, m.a. þau álitaefni sem hæstv. ráðherra vísaði hér í, því að hann er svo sannarlega með skoðanir og mat á hlutum sem er sjálfsagt og eðlilegt. En málið er það stórt og það mikilvægt að ég tel að það væri mjög skynsamlegt ef þeir flokkar sem hér eru á þingi mundu sameinast um að fara vel yfir þetta mál því að hagsmunirnir eru svo gríðarlegir.

Ég spyr hæstv. ráðherra í fyllstu einlægni sem forustumann í stærsta stjórnmálaflokknum á þingi: Kemur það til greina af hans hálfu?