138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans hér áðan og tek undir það sem margir aðrir hafa sagt hér að hann hefur nú yfirleitt verið málefnalegastur af þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu.

En mig langar að beina hér örfáum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra, í fyrsta lagi varðandi það þegar menn fóru í þessa vegferð í upphafi og skipuðu þessa samninganefnd: Hefði ekki verið skynsamlegra að hafa hana þverpólitíska og hafa í henni sérfræðinga á því sviði?

Í öðru lagi langar mig að vita, því að inni í samningnum eru greiddir vextir frá 1. janúar sem nema um 35 milljörðum, hvort hann sé sáttur við það atriði í samningnum.

Í þriðja lagi, samkvæmt samningnum greiðum við Bretum og Hollendingum 3,5 milljarða í umsýslukostnað, þ.e. kostnað við að greiða þetta út. Finnst honum það sanngjarnt?