138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri þá játningu að mér finnst málið allt saman hábölvað og ég vildi óska að það hefði verið einhver leið til þess að losa það endanlega og eilíflega úr vitund íslensku þjóðarinnar. En við erum bara í þessari stöðu og ég reyndi fyrir mitt leyti að gera grein fyrir því í ræðu minni hér áðan að meta kostina sem eru fyrir hendi. Mér sýnist að þróunin hafi verið sú að það sé minnkandi áhætta við að fara þá leið sem ég styð og ég hef ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að fara eigi þessa svokölluðu dómstólaleið, eins og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað mjög.

Varðandi tvær seinni spurningarnar finnst mér þetta ósanngjarnt, ég vildi að það hefði verið hægt að breyta því. Þetta hefur verið skýrt út fyrir mér, sérstaklega síðara atriðið. Varðandi hitt sem hv. þm. spurði um, þ.e. samsetningu samninganefndarinnar, held ég að hún hafi staðið sig bara mjög vel við mjög erfiðar aðstæður. (Forseti hringir.)