138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi lagalega túlkun á þessum samningi virðist það vera rétt að hana eigi að gera fyrir breskum dómstólum. Það hefur þegar komið fram að Bretar og Hollendingar treysta ekki íslenskum dómstólum og ríkisstjórn Íslands samþykkir það einfaldlega, kokgleypir það. (VigH: Rétt.) Það er náttúrlega enn ein hneisan í þessu máli, að íslenskir ráðamenn skuli vera búnir að afskrifa íslenska dómstóla og seint hefði mér dottið í hug að einhver mundi gera það.

Hvað varðar efnahagslegu fyrirvarana er búið að sveipa þá þvílíkri þoku og það er búið að aftengja þá með öllu frá því sem lagt var af stað með í sumar. Vextirnir verða greiddir, hundruð milljarða, alveg sama hvernig fer hér í efnahagsmálum, og allt tal um að setjast eigi niður og ræða málið ef allt fer á verri veg eru bara útúrsnúningar.

Málflutningurinn, eins og ég sagði áðan, er ömurlegur. Það fæst kannski einhver smápása í því að greiða af höfuðstólnum en það eru líka ákvæði í samningnum að Ísland muni greiða af þessu láni út í hið óendanlega, alveg sama hvernig hér fer í efnahagsmálum. Það er búið að lemja þjóðina niður á hnén af ríkisstjórn Íslands vegna þess að hún gat ekki staðið í lappirnar í samskiptum við aðrar þjóðir.