138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í ljósi síðustu orða hv. þm. Þráins Bertelssonar minni ég á að í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér áðan komu tilmæli frá einum hv. þingmanni, Ásmundi Einari Daðasyni, til hæstv. samgönguráðherra að hefja mokstur á hinum ýmsu heiðum landsins. Væntanlega getur hæstv. samgönguráðherra beitt sér fyrir einhverjum mokstri í því máli sem hér er til umræðu.

Við getum örugglega þrasað um það endalaust hverjum er um að kenna í þessu máli og umræðan í dag hefur dregið dám af því að menn reyna að finna sökudólga. Ég ætla ekki að elta ólar við allt það sem þar hefur verið sagt en get þó ekki látið hjá líða að nefna sérstaklega tvö atriði sem hér hafa komið fram í máli hæstv. ráðherra sem hafa verið að ræða þessi mál. Þeir hafa fundið sér með einhverjum hætti afsökun í þeirri gjörð sem við stöndum frammi fyrir og því verklagi sem ríkisstjórnin hefur viðhaft frá því að hún tók við þessu máli.

Í fyrsta lagi er að nefna óformlegt samkomulag sem gert var við Hollendinga 11. október á síðasta hausti, Memorandum of Understanding, um greiðslu á hlut Hollendinga í þessu máli. Þar er vísað til vaxtakjara og fleiri þátta. Nefna ber það í leiðinni að þann sama dag og þetta samkomulag var gert, óformlega, var það afturkallað í viðræðum forsætisráðherra beggja landa, Íslands og Hollands. Og eins og hér hefur komið fram í umræðunni lýstu Hollendingar því jafnframt yfir í kjölfar samþykkta Brussel-viðmiðanna að þeir væru tilbúnir að semja á öðrum nótum en minnisblaðið hafði kveðið á um. Þar af leiðandi fellur þetta um sjálft sig sem rök fyrir því að við afgreiðum málið með þessum hætti.

Í annan stað hefur verið vitnað til og er enn vitnað til í greinargerð með þessu frumvarpi nú, eins og gert var við frumvarpið sem kom fyrst fram í júní, til yfirlýsingar framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá 15. nóvember sl. þar sem Ísland hét því að virða allar skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingarkerfisins gagnvart öðrum innlánshöfum. Síðari hluta þessarar yfirlýsingar er sleppt. Í áliti 1. minni hluta við afgreiðslu þessa máls var undirstrikað að okkur þótti það ómaklegt og ómálefnalegt að taka ekki síðari hlutann með. Þess vegna vakti það furðu mína að sjá þess ekki getið í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar í þessu máli nú. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þann fyrirvara sem kom fram í þessari umræddu viljayfirlýsingu en ríkisstjórnin sleppir honum venjulega í upptalningu sinni. Hann hljóðar svo:

„Ítrekuð er sú yfirlýsta stefna stjórnvalda að standa lagalega rétt að uppgjöri gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum gömlu bankanna, hvort sem er í samræmi við íslensk gjaldþrotalög eða þjóðréttarlegar skuldbindingar.“

Svo kemur:

„Íslendingar hyggjast virða allar lagalega réttarlagalegar skyldur sínar. Sé ekki samkomulag um það hverjar þær séu sé réttast að vísa slíkum ágreiningi til dómstóla eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi.“

Af einhverjum ástæðum er kosið enn og aftur að sleppa þessum hluta máls og það er ósanngjarnt og ekki málefnalegt.

Að svo mæltu ætla ég ekki að vitna frekar til fyrri gagna í þessu máli og því síður til þess hvernig menn hafa hér í umræðunni í dag verið að hanga í því hver sagði hvað á hverjum tíma. Ég held því fram einfaldlega að allt hafi verið satt og rétt og menn hafi mælt fram af heilindum hver á sínum forsendum þegar það var gert. En í ljósi þess hvernig málið hefur þróast og að sífellt koma fram nýjar upplýsingar er kannski ekkert óeðlilegt við að yfirlýsingar sem einstaklingar hafa gefið á pólitískum vettvangi um stöðu málsins á hverjum tíma kunni að taka breytingum. Það er ekkert óeðlilegt við að menn lagi skoðun sína og áherslur að þeim nýju upplýsingum og gögnum sem fram hafa komið og þau eru umtalsverð á þeim tíma sem þetta mál hefur verið hér til umfjöllunar. Og að sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt við að menn greini á um með hvaða hætti þessi skuld er til komin. En það er alls ekki málefnalegt og það er heldur ekki laust við lýðskrum að reyna að finna einhvern einn sökudólg, hvort heldur það er í einstaklingi eða stjórnmálaflokkum.

Ábyrgð manna og ábyrgð flokka er að sjálfsögðu mismikil. En við öll sem hér vinnum berum okkar ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin, að sjálfsögðu. Ég lít svo á að það sé aumt að reyna að koma ábyrgðinni af klessuverki, ef því er að skipta, yfir á aðra en sjálfan sig. Og það vita það allir að sú ríkisstjórn sem nú situr, samstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, tók við í miðri milliríkjadeilu. Stjórnin ber þar af leiðandi alla ábyrgð á niðurstöðu þeirra samninga sem hún leggur fram á þessum dögum. Það er hins vegar sorglegt að horfa upp á það hvernig við Íslendingar höfum tapað stöðu okkar í þessari milliríkjadeilu gagnvart Bretum og Hollendingum, sérstaklega ef maður ber þetta saman við fyrri deilur og nægir þá bara að vitna til landhelgisdeilnanna við Breta á sínum tíma. Þá var staðan öðruvísi. Þá var hugurinn annar, en í dag liggur við að maður geti sagt að við séum beygð þjóð, því miður.

Í þeirri stöðu, í byrjun júní, lagði stjórnin fram frumvarp í þessu málum sem kallaði á skilyrðislausa og ótakmarkaða ríkisábyrgð. Þegar þingið fékk þetta mál til umsagnar og menn fóru að kynna sér innihaldið hraus þeim hugur við og sem betur fer náðu alþingismenn saman um það í fjárlaganefnd að leita leiða og ná saman um það með hvaða hætti hægt væri að draga úr þeim skaða sem í stefndi að óbreyttu frumvarpi fyrir íslenska þjóð. Lagt var í mikla vinnu — ég vil leyfa mér að segja vandaða vinnu til þess að Alþingi gæti náð saman um að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir í ríkisbúskapnum. Og hvers vegna skyldum við hafa lagt í þetta? Jú, vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að tekjur ríkisins eru að dragast saman og við stöndum frammi fyrir því að velferðarkerfið, sem öllum er mjög annt um, er í stórri hættu. Því hærri skuldbindingu sem við ætlum að undirgangast í þessu máli, þeim mun líklegra er að við vegum að undirstöðu velferðarkerfisins. Það var því áríðandi að sú vinna sem Alþingi lagði í tækist vel, við höfðum ekki hugmynd um hver skuldbindingin var þegar við tókum við þessu máli inn í þingið í krónum og aurum. Ég fullyrði að í dag höfum við heldur ekki hugmynd um hver hún er í raun og það er enginn maður hér í dag sem er fær um að gefa hana upp, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki fengið tækifæri til þess að nálgast þær stærðir sem til þarf svo við getum áttað okkur á umfanginu.

Þau lög sem við settum hér í ágætissamstarfi en í þó nokkrum ágreiningi við endanlega afgreiðslu, voru atriði í tíu liðum sem við kölluðum skilyrði eða fyrirvara og yfir þau hefur margoft verið farið. Ég get alveg fullyrt það í ljósi þess sem ég hef lesið í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að í mörgum stórum meginatriðum er vikið frá þeim skilyrðum sem sett voru, alveg tvímælalaust. Um það þarf í rauninni ekkert að deila. Enda segir hér í 1. gr. frumvarpsins að sú ábyrgð sem eftir er sótt sé í samræmi við lánasamningana, gangi í gildi 5. júní 2016 og ráðist einvörðungu af ákvæðum samninganna.

Þannig að lánasamningarnir eru farnir að hafa áhrif á með hvaða hætti ríkisábyrgðin á að virka, öfugt við það sem gert var í sumar og í þeim lögum sem sett voru þá. Þar setti Alþingi skilyrði fyrir því með hvaða hætti ríkisábyrgðin ætti að vera virk þannig að hér er um algjöran umsnúning á þessu máli að ræða í þessum efnum.

En af hverju skyldi málið vera komið í þessa stöðu? Það kemur raunar ágætlega fram í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er mat ríkisstjórnarinnar að meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga.“

Svo kemur:

„Litið er svo á að lengra verði ekki komist og nauðsynlegt sé að ljúka málinu.“

Í annan stað segir á bls. 16, með leyfi forseta:

„Hinn pólitíski og efnahagslegi ávinningur af því að ljúka málinu með þessum hætti er mun meiri en þau atriði sem upp á vantar til að fullt samræmi sé á milli ákvæða viðaukasamninganna og 1.–4. gr. gildandi laga nr. 96/2009.“

Hvað felst í þessum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar? Jú, það felst í þeim að hún treystir sér ekki til að ganga lengra og hún treystir sér ekki til að framfylgja þeim lögum sem Alþingi setti í lok ágúst sl. Það felst líka í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem endurspeglaðist í orðum hæstv. fjármálaráðherra við umræðuna hér í morgun og fyrirspurnum að í hans huga er málið komið í endanlegan búning. Það er að segja, ef Alþingi gengur ekki frá málinu með þeim hætti sem hér er lagt fram hefur ríkisstjórnin enga aðra kosti en fara frá.

Ég vil taka það skýrt fram að það er ekki óskadraumur minn að svo sé. Ég er ekki að berjast í þessu máli til að þannig fari. Ég er að berjast í þessu máli og hef lagt mitt fram ásamt öllum öðrum sem að málinu hafa komið til þess að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð af því að undirgangast skuldbindinguna með þeim hætti sem ráð var fyrir gert. Og því miður er málið komið í sama búning aftur og það var í upphafi í júní. Hér liggur fyrir ósk um algerlega ótakmarkaða og skilyrðislausa ríkisábyrgð sem eingöngu er bundin af einhverjum samningum sem þingið á eftir að fara í gegnum. Þetta er í rauninni sama mál, bara í öðrum búningi.

Í ljósi þeirra orða sem hæstv. fjármálaráðherra hafði hér fyrr í dag um hvort þetta mál væri komið í endanlegan búning og í ljósi þess hvernig hæstv. ráðherra vék sér undan fyrirspurn hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um hvernig þingið ætti að taka á þessu máli, vakna hjá mér spurningar um hvernig þeir ætlast til að Alþingi gangi til verks í þessu máli. Það er fullt af atriðum í þessum samningum sem þurfa mjög gaumgæfilegrar athugunar við. Og stóra málið í þessu hlýtur að vera það hvernig okkur gengur í ríkisbúskapnum að eiga við þær skuldbindingar sem af þessu leiða. Stóra málið í skuldbindingunni, eins og hún liggur fyrir, eru vaxtagreiðslur. Það liggur fyrir að í efnahagslegum fyrirvörum eru þeir teknir út fyrir sviga og okkur er ætlað að standa skil á þeim, hvað sem tautar og raular. Hvernig verðum við í stakk búin til þess?

Ýmsir hafa lagt fram svör í þeim efnum og ég ætla að nefna hér sérstaklega einn þingmann Vinstri grænna, hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem ritaði grein í Morgunblaðið í morgun. Með leyfi forseta ætla ég að vitna til þeirra orða sem þar eru sögð:

„Eitt af hlutverkum sjóðsins hér á landi er að birta reglulega mat á skuldaþoli ríkissjóðs til að meta hvort hann stefni í greiðsluþrot. Það merkilega gerðist hins vegar í sumar að sjóðurinn neitaði að birta þessa útreikninga. Af hverju skyldi það vera? Jú, ríkissjóður þolir ekki meiri skuldsetningu, þ.e. Icesave-skuldsetninguna án þess að eiga á hættu að lenda í greiðsluþroti. Einn mælikvarði á skuldaþol ríkissjóðs er hlutfall erlendra skulda af tekjum ríkissjóðs í ár er 292% og fer í 318% á næsta ári. Langt fyrir ofan hættumörk.“

Þetta er umhugsunarinnar virði og kallar á það og krefur okkur í fjárlaganefnd, þegar við fáum þetta mál til meðferðar, um að fara í gegnum þær stærðir sem við fórum í gegnum í sumar. Nú koma fram nýjar upplýsingar um skuldastöðu ríkissjóðsins og þjóðarbúsins sem kalla á það, ef við viljum reyna að lágmarka skaðann og aðförina að velferðinni í landinu, að við förum í gegnum þetta mál allt saman, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þá væri mjög gott að fá vegvísi m.a. frá ríkisstjórninni og hæstv. fjármálaráðherra varðandi það hvort ekki sé ætlast til þess að við vinnum með þeim hætti að við leggjum í ítarlega greiningu á þessu því að meginspurningin er sú sem hæstv. fjármálaráðherra spurði í morgun: Ræður þjóðarbúið við þessa skuldbindingu? Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að við teljum svo vera verðum við líka á sama tíma að geta svarað því hvernig það ræður við það og með hvaða ráðum við ætlum þjóðarbúinu að ráðast á þessa skuldbindingu og takast á við hana. Það liggur fyrir að með þeim aðferðum sem viðhafðar hafa verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) muni hún því miður ekki gefa okkur kraft til þess að taka á með öflugri hætti en í hefur stefnt (Forseti hringir.) í nokkuð langan tíma.