138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Enn vindur Icesave-hneykslið upp á sig. Hvað eftir annað hefur ríkisstjórnin komið fram með staðhæfingar sem hún hefur síðan hrakist til baka með. Og nú, eina ferðina enn, er verið að færa þetta niður á lægra plan. Það urðu margir til að benda á það þegar gengið var frá Icesave-frumvarpinu og það samþykkt illu heilli hér um daginn að á því væru ýmsir ágallar, meðal annars sá að líta mætti á þetta sem samningstilboð frá Alþingi miklu frekar en einhverja endanlega niðurstöðu. Ríkisstjórnin tók slíkum fullyrðingum ekki vel, taldi þær fjarstæðukenndar. Og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði í ræðu við það tilefni, með leyfi forseta:

„Síðan geta menn rætt um hvort um sé að ræða gagntilboð eða ekki. Viðkomandi aðilar, þ.e. Hollendingar og Bretar, verða að fallast á að þessir fyrirvarar séu forsenda ríkisábyrgðarinnar. Og það verður þá hver og einn að meta hversu langt þeir ganga, hvort þeir blessa þetta sem slíkt eða hvort þeir óska eftir að ræða við fjármálaráðherra um málið. Ég tel að þeir eigi ekkert val, þeir verði að ganga að þessum samningum.“

Þannig var þetta kynnt fyrir þingi og þjóð að þetta væri niðurstaða Alþingis. Eðlilega. Þetta voru lög afgreidd frá Alþingi. En nú ber svo við að utanaðkomandi aðilar, erlendir aðilar, eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig lög sem samþykkt hafa verið eru frágengin, hvernig þau eiga að líta út. Þetta er algjör nýjung í lagasetningu á Íslandi og hefði ekki verið hægt að finna verra mál til þess að innleiða þessa nýjung. Nú hljóta ýmsir að velta því fyrir sér, hagsmunaaðilar hér og þar, hvort þeir séu í aðstöðu til þess þegar Alþingi hefur samþykkt lög að hefja viðræður við þingið um breytingar á lögunum, aðlaganir og lagfæringar svo það falli betur að hagsmunum þeirra. Hvað ætli LÍÚ segi t.d. ef ríkisstjórnin gerir breytingar á sjávarútvegsfyrirkomulaginu? Geta þeir þá nálgast ríkisstjórnina og farið fram á að gerðar verði ýmsar lagfæringar á lögunum?

Nei, þetta er hættuleg braut sem ríkisstjórnin er að leiða okkur inn á og enn þá hættulegri í ljósi þess að í þessu felst að vegið er ekki aðeins að þinginu sjálfu og þingræðinu heldur líka sjálfum Hæstarétti Íslands. Það er sem sagt vegið að þrískiptingu ríkisvalds. Enn á ný er ríkisstjórnin, sem talaði svo mikið um mikilvægi þingræðisins og lýðræðis, í þeirri stöðu að það er vaðið yfir þingið og svo á að vaða yfir Hæstarétt líka, gera lítið úr hlutverki hans og raunar að færa völdin frá Hæstarétti Íslands annað. Hvert á að færa völdin? Það á að færa þau út til gagnaðila okkar í þessu máli, þeirra sem hafa kúgað okkur og beitt alveg ótrúlegri hörku og ósvífni, sömu manna og ríkisstjórnin hefur því miður varið allt frá upphafi. Það er líklega það sorglegasta í þessu máli að allt frá upphafi hefur þessi ríkisstjórn og talsmenn hennar varið Breta og Hollendinga og af þeim mun meiri hörku sem harkan hefur aukist af þeirra hálfu í okkar garð. Það held ég að engin önnur ríkisstjórn í sögu Íslands hefði gert. Engin önnur ríkisstjórn hefði svo gjörsamlega kastað frá sér hagsmunum eigin þjóðar og beitt sér af þvílíku afli fyrir þá sem réðust á þá þjóð sem þessi ríkisstjórn átti að verja. Þar hafa menn gengið alveg ótrúlega langt. Á viðkvæmasta tímapunktinum í þeim viðræðum sem nú fóru í hönd birti forsætisráðherra eða dreifði til fjölmiðla skýrslum sem hún hafði látið vinna til að sýna fram á að Íslendingar hefðu enga stöðu í málinu. Samningsstaðan væri í rauninni ekki fyrir hendi, við ættum engan annan kost en að gefa allt eftir vegna þess að annars hryndi hér allt saman. Á meðan verið var að reyna að ná samningum við Breta og Hollendinga var þessu dreift. Og á sama tíma lagði hæstv. forsætisráðherra sig fram um að slá út af borðinu alla aðra möguleika þannig að þar var engrar undankomu auðið fyrir Íslendinga í þeim viðræðum. Svona hafa íslensk stjórnvöld því miður beitt sér í þessu máli og gera enn, eins og heyra mátti á ræðu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan.

Allan þann langa tíma sem þetta mál hefur verið í meðförum þingsins hefur aldrei verið leitað ráðgjafar út fyrir þann þrönga hóp sem talar stöðugt í lokaðri „lúppu“ um að við eigum engrar undankomu auðið. Tækifærið var ekki nýtt til þess að leita til erlendra sérfræðinga, einhverra sem reynslu hafa og þekkingu einmitt á þeim málum sem hér er við að eiga. Það gafst nægur tími til þess enn og aftur, sérstaklega fyrst ríkisstjórnin var tilbúin að hefja samningaviðræður um það sem búið var að leiða í lög. En nei, tækifærið var ekki notað. Þess í stað var send út samninganefnd. Og hverjir skipuðu þá nefnd? Þeir hinir sömu og höfðu búið til hina upprunalegu Icesave-samninga. Hvaða ríkisstjórn annarri hefði dottið slíkt í hug að senda út sömu mennina og voru búnir að skuldbinda sjálfa sig áður með hinum agalegu Icesave-samningum?

Svona hefur verið haldið á þessu máli öllu og viðbrögðin eru iðulega þau að reyna að beita blekkingum, draga upp þá mynd að hlutirnir séu allt öðruvísi en þeir eru og fela staðreyndirnar, eins og þá augljósu staðreynd að einungis vextirnir, sem alltaf munu lenda á Íslendingum, hverjar sem endurheimturnar verða hjá Landsbankanum, nema 100 milljónum kr. á dag. Hundrað milljónir á dag, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, sem alltaf lenda á Íslendingum. Og svo reynir þessi ríkisstjórn að leiða fram menn til þess að halda því fram að þetta sé nú kannski ekki svo mikið mál. Það séu önnur stærri vandamál og þar af leiðandi eigum við ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Hvað væri hægt að gera fyrir 100 milljónir á dag? Þetta er töluvert meira en nemur öllum þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin hefur þó ekki treyst sér til þess að ganga frá og sér ekki fyrir endann á hvernig verður þegar upp er staðið.

Fyrir 100 milljónir á dag væri hægt að moka býsna mikinn snjó, eins og hv. þm. Þór Saari bendir á, og það væri svo sannarlega hægt að halda heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu og menntakerfinu gangandi, þeim grunnstoðum samfélagsins sem þessi ríkisstjórn lofaði að verja.

Þegar teknar eru 100 milljónir á dag — vel að merkja 100 milljónir í erlendri mynt — má reikna með margföldunaráhrifum, tvöföldum eða þreföldum, og tala um 200 eða 300 milljónir þegar þetta er tekið út úr íslenska hagkerfinu. Það hefur áhrif á líf fólksins í landinu og það hefur áhrif á heilbrigðiskerfið, það hefur áhrif á menntakerfið, það hefur áhrif á alla þætti samfélags okkar, áhrif sem við megum alls ekki við núna. Þegar rökleysan og útúrsnúningarnir duga ekki er reynt að þreyta þing og þjóð til þess að samþykkja þennan óskapnað. Því er haldið fram að því miður verðum við bara að fara að klára þetta því að það megi ekki verja meiri tíma í þetta, eins ekki sé hægt að gera neitt annað á meðan. Ákaflega sérkennilegt er að þessi ríkisstjórn virðist ekki geta gert nema einn hlut í einu. (Gripið fram í.) Nú kvartar hún undan því að það hafi farið svo mikill tími hjá sér í Icesave að hún hafi því miður bara ekki komist í neitt annað á meðan. Þess vegna verði að klára Icesave-málið, einungis þannig geti ríkisstjórnin farið að sinna því hlutverki sem hún var kjörin til.

Það er ekki gott við þessar aðstæður að hafa ríkisstjórn sem getur aðeins gert einn hlut í einu. En hver ætli verði næsta afsökun stjórnarinnar ef Icesave-málið klárast? Þessari ríkisstjórn hefur nefnilega alltaf tekist að finna einhverjar afsakanir, geta kennt einhverjum öðrum um, einhverri fyrirstöðu, kennt því um þá augljósu staðreynd að þessi ríkisstjórn er ekki fær um að taka á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir á nokkurn einasta hátt. Hún hefur þess í stað unnið ítrekað verulegan skaða og gerir enn. En mesti skaðinn er þetta Icesave-frumvarp sem stefnir í að festa þjóðina í varanlegri kreppu. Það sorglega við þetta er að þetta virðist ríkisstjórnin gera, ekki af illvilja, heldur hreinlega af skilningsleysi. Aftur og aftur verðum við þess vör að ríkisstjórnin veit ekkert um hvað málið snýst og allra síst hæstv. forsætisráðherra, sem hvað eftir annað lendir í mótsögn við sjálfa sig þegar málið er rætt.

Hér kom áðan upp hv. þm. Pétur Blöndal og benti á nokkrar staðreyndir þessa máls, hluti sem geta skipt hundruðum milljarða króna. Hæstv. utanríkisráðherra var ekki frekar en aðrir ráðherrar með á nótunum hvað varðaði þessa hluti. Og svoleiðis hefur það verið, ráðherrar í þessari ríkisstjórn vita ekki við hvað við er að fást og allra síst þingmennirnir sem voru tilbúnir að samþykkja upprunalegu Icesave-samningana óséða. Það er viðbúið þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti að það verði slys. Og hér stefnir í stórslys, slys sem menn munu líklega sjá eftir um ókomna tíð, a.m.k. áratugi ef fram heldur sem horfir, slys sem má forðast því að staðan er ekki eins vonlaus og ríkisstjórnin vill láta líta út fyrir að hún sé. Hún leggur svo mikið á sig til að láta stöðuna virðast vonlausa. Ef menn hefðu haft fyrir því að tala máli Íslands og útskýra stöðuna væri staða okkar miklu sterkari. En það hefur ekki verið gert.

Hvað eftir annað reka menn sig á það sem hitta erlenda þingmenn eða erlenda fjölmiðla að það hefur enginn haft fyrir því einu sinni að reyna að útskýra hver raunveruleg staða Íslands er. Það hefur svo sannarlega enginn haft fyrir því að reyna að leita annarra leiða út úr vandanum. Þegar stjórnarandstöðuliðar eða jafnvel þingmenn innan stjórnarinnar bjóða upp á nýjar lausnir er ótrúlegum kröftum varið í að keyra það í kaf. Ef ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Samfylkingin, hefði varið jafnmiklum kröftum í að verja hagsmuni Íslands í þessu máli og þeim málum sem við stöndum nú frammi fyrir og þau hafa varið í að kveða niður allar hugmyndir sem koma frá stjórnarandstöðu eða einhverjum óæskilegum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, væri staða okkur allt önnur og sterkari.

Því miður hefur þessi ríkisstjórn frá upphafi talað máli kvalara okkar og virðist ætla að gera það enn. Það þýðir ekki þegar fram líða stundir fyrir þá sem bera munu ábyrgð á niðurstöðunni hér að afsaka sig með því að menn hafi verið orðnir svo þreyttir á umræðunni. Ef menn eru orðnir þreyttir á umræðunni er það eingöngu vegna þess hvernig þessi ríkisstjórn hefur haldið á málinu.

Því skora ég á ríkisstjórn Íslands að snúa nú við blaðinu og fara að verja hagsmuni Íslands í stað þess að vega stöðugt að þeim. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að snúa við blaðinu og leita lausna í stað þess að tala stöðugt um þann vanda sem hún á við að etja.