138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi þingsályktunartillöguna í desember 2008 er það alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, við héldum allan tímann lagalegu fyrirvörunum inni, þ.e. óvissunni um það hvort okkur bæri skylda til að borga þetta, þeim var haldið í gegnum málið allt. Ég hélt að ég hefði minnst á það í ræðu minni einmitt vegna þeirra samþykkta sem við gerðum í desember og þeirrar umræðu sem átti sér stað á undan. Eftir að hafa tekið mark á þeirri umræðu og ábyrgð þeirra stjórnvalda sem þar gáfu yfirlýsingar taldi ég að við hefðum ekki einu sinni þurft að taka þetta upp vegna þess að sá fyrirvari var svo klár fyrir og það er ekkert í samningnum sem tók þann fyrirvara af okkur. Ég viðurkenni að ég er ekki með þingsályktunartillöguna frá því í desember en mig minnir að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi flutt tillögu — hann kemur hér á eftir, ef ég veit rétt, og getur kannski staðfest það — um að þetta kæmi aftur fyrir þingið en að það hafi ekki einu sinni verið samþykkt. Menn hefðu því getað farið í gegn með þessa afgreiðslu, miðað við samþykkt 54 þingmanna, án þess að málið kæmi nokkurn tíma fyrir Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) En það var sem betur fer ekki afgreitt þannig.