138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að hver einasti þingmaður á Alþingi Íslendinga hefur haft hagsmuni þjóðarinnar í huga í umfjöllun sinni. Ég hef ekki leyfi til þess og hef heldur enga sérstaka ástæðu til þess að ætla annað. Þannig var vinna mín við þetta mál. Þegar ég mæli með afgreiðslu í sambandi við þessa fyrirvara og þá niðurstöðu sem þar fékkst og þegar ég tala um að við höfum keyrt tæpt er það einmitt vegna þess að ég var með hagsmuni þjóðarinnar í huga.

Hagsmunir þjóðarinnar þurfa ekki endilega að vera þeir að neita að borga. Ég hafði t.d. hugmyndir um að við tækjum þennan slag miklu seinna einfaldlega vegna þess að þá værum við sloppin úr því pólitíska umhverfi sem er núna og þeim krísum sem eru í dag. (Gripið fram í.) Það er endurskoðunarákvæði í samningnum, það er ákvæði um aðkomu alþjóðasamfélagsins, að það hjálpi okkur ef við lendum í vandræðum. (Gripið fram í.) Það var hugsanlegt að halda því inni og það var það sem við gerðum að hluta. Það stendur allt enn þá þannig að við eigum að horfa til þess og koma okkur áfram miðað við núverandi ástand, (Forseti hringir.) klára málið, fylgja því vel eftir en áskilja (Forseti hringir.) okkur rétt að taka það upp aftur.