138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst langar mig aðeins að fara yfir gang þessa máls vegna þess að mér finnst það skipta máli varðandi aðkomu fjárlaganefndar. Í upphafi fól þingið framkvæmdarvaldinu að gera samning. Sá samningur var lagður fyrir þingið og við unnum það sem Alþingi Íslendinga og settum ákveðna fyrirvara en skiluðum þeim niðurstöðum aftur til framkvæmdarvaldsins. Mér fannst aldrei óeðlilegt að ríkisstjórnin reyndi að framfylgja þeim lögum sem sett voru. Við hefðum auðvitað getað sagt að það ætti bara að segja já eða nei, menn hefðu ólíkar skoðanir á því, en ég gerði mér grein fyrir því að ef við ætluðum að kalla eftir svörum yrðum við að taka því að það kostaði einhverjar viðræður þar á milli til að fá endanleg svör.

Nú er málið komið að nýju fyrir þingið vegna þess að menn gátu ekki staðið við þá fyrirvara. Þá ber framkvæmdarvaldið, eða ríkisstjórnin í þessu tilfelli, eftirfarandi undir Alþingi: Er fært að fara þá leið sem hér hefur verið lögð fram? Það er svo okkar í fjárlaganefnd og síðar Alþingis alls að svara því hvort við erum sátt við það og þar reynir auðvitað á þingið í heild. Það er þingið sem afgreiðir (Forseti hringir.) málið að lokum.