138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður las upp úr ræðu minni frá því í sumar og ég gengst við öllu því sem ég sagði. Ég endurtók það í ræðu minni í dag. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á ræðu mína í dag en þar færði ég rök fyrir því að þeir fyrirvarar sem samþykktir voru af hálfu Alþingis í sumar væru enn til staðar og að mínu viti í sumum tilvikum hefði verið hert á þeim. Þetta vil ég að komi fram. Ég tel sem sagt að Alþingi hafi unnið töluvert drjúgan sigur vegna þess að fyrirvararnir frá því í sumar eru ýmist komnir inn í samninginn eða þá að þeirra sér stað í frumvarpinu að öðru leyti sem hér er enn til umræðu. (Gripið fram í.)