138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra Íslands, Bretlands og Hollands kemur fram að aðilar Icesave-samkomulagsins eru einhuga um að starfa saman á næstu mánuðum og árum að því að veita aðstoð við endurheimt þeirra eigna sem Landsbankinn á úti um allan heim.

Í mínum huga snýst Icesave-samkomulagið öðrum þræði um að Íslendingar verði viðurkenndir sem þjóð á meðal þjóða. (Gripið fram í.) Í stað þess að eiga óvini í hverju horni hafa þessar þjóðir ákveðið að leggjast á árarnar með okkur við að innheimta verðmæti sem voru frá okkur tekin. Þessi verðmæti liggja ekki aðeins í Bretlandi og Hollandi heldur dreifist slóð Landsbankans vítt og breitt um heiminn. Þannig má búast við því að Bretar og Hollendingar geti aðstoðað okkur við að sækja eignir Landsbankans til Lúxemborgar, Sviss, Kanada og víðar því að þræðirnir liggja um allan heim. Það munar um þessar eignir þegar kemur því að gera upp skuldina.

Í mínum huga snýst þetta ekki bara um krónur og aura þótt auðvitað skipti sá þáttur meginmáli fyrir íslenska skattgreiðendur bæði í nútíð og framtíð. Þetta snýst um orðspor þjóðarinnar því að við skulum hafa það í huga, hæstv. forseti, að „orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur“.