138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan eftir að hæstv. utanríkisráðherra flutti ræðu sína í dag að mér fannst hún að mörgu leyti mjög málefnaleg. Hins vegar fannst mér hæstv. utanríkisráðherra ekki málefnalegur núna. Ég sagði það áðan í ræðu minni að það væri hætta á þessu en ég vonast svo innilega til þess að það muni ekki gerast. Ég er ekki með neina heimsendaspá. Það er sameiginlegt markmið okkar allra hér inni að reyna að byggja samfélagið þannig upp að við getum staðið undir þessum skuldbindingum. En eitt veit ég þó, frú forseti. Það er að ef ríkisstjórnin lætur ekki af þeirri stefnu sem hún hefur í uppbyggingu í atvinnulífi og öðru er mjög mikilvægt að þessi fyrirvari hafi verið eins og hann var fyrr. Síðan kemur hæstv. utanríkisráðherra og segir: Fyrirvararnir hafa styrkst. Þá langar mig bara að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvaða fyrirvarar hafa styrkst? Það kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að það hafi valdið honum mjög miklum vonbrigðum að breytingar hafi orðið á fyrirvörunum. Það er vegna þess að hann telur þá veikari, það gefur algerlega augaleið.

Síðan sagði ég líka að ég væri ekkert að gera lítið úr því að hæstv. utanríkisráðherra hafi rætt við menn, hvort heldur það var í lyftum eða annars staðar. Ég sagði orðrétt að við áttum að nýta krafta okkar allra og fylgja eftir þeirri samstöðu sem við náðum hér í sumar. Það var það sem ég sagði. Og bara til að rifja það upp fyrir hæstv. utanríkisráðherra, eftir að við samþykktum Icesave-samkomulagið hvarf hæstv. forsætisráðherra. Hún talaði hvorki við innlenda né erlenda blaðamenn. Það er líka ágætt að rifja það upp, og það væri kannski fróðlegt ef það yrði tekið saman af forseta þingsins, hvað hæstv. forsætisráðherra hefur verið mikið í þingsölum þegar menn hafa rætt þetta stærsta mál þjóðarinnar. Ég hugsa að það verði ekki mikið verk að gera það og það væri bara fínt að fá það fram hvað hún hefur verið lengi hér, verkstjórinn sjálfur.