138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna sem var málefnaleg þó að ég fallist ekki á öll þau sjónarmið sem þar komu fram. En það er mjög mikilvægt að við eigum málefnalegar umræður um þetta mál og gleymum okkur ekki í pólitískum skylmingum. Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég er ósammála því mati hv. þingmanns að við eigum ekki annarra kosta völ en að samþykkja þetta núna.

Haldið hefur verið uppi linnulausum hræðsluáróðri í sumar og í haust um það atriði og ég tel að staðan sé ekki sú að við séum nauðbeygð að samþykkja þennan samning eins og hann er, (Gripið fram í.) jafnvel þó að við séum og getum verið þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt og æskilegt að finna samkomulagsleið.

Varðandi efnisatriði málsins vil ég nefna þrennt sem mér fannst vanta inn í ræðu hv. þingmanns, sem að öðru leyti fór málefnalega yfir þetta: Þegar hún talar um efnahagslega fyrirvara talar hún um 6% af uppsöfnuðum hagvexti en það sem hún gleymdi var að vextir skulu alltaf greiðast. Það er fyrirsjáanlegt að vaxtakostnaðurinn verður gríðarlegur og hann þarf að greiða hvort sem vel eða illa árar í íslensku efnahagslífi. Þess vegna er öryggisventillinn sem fólst í þessu greiðsluhámarki lítils virði.

Í öðru lagi vék hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ekki að því að lagalegir fyrirvarar (Forseti hringir.) hafa verið útþynntir stórlega. Og í þriðja lagi verð ég að nefna að ákvæðið varðandi 2024 (Forseti hringir.) er með verulega öðrum hætti en æskilegt hefði verið og öryggisatriðið í því sambandi líka horfið.