138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var kannski ekki um beina spurningu eða spurningar að ræða en þau tvö önnur atriði sem ég vék að í máli mínu voru þau að lagalegir fyrirvarar sem voru fyrir hendi í samþykkt Alþingis 28. ágúst hafa verið útþynntir verulega og það þarf auðvitað að fara mjög vandlega yfir það í fjárlaganefnd hvaða afleiðingar það kemur til með að hafa.

Í þriðja lagi nefndi ég þann öryggisventil sem tengdist árinu 2024 sem lokaári greiðslna Íslendinga. Það er vissulega rétt að í lögunum eins og þau voru samþykkt 28. ágúst var getið um það að ef eftir stæðu greiðslur eða skuld á því tímabili skyldi efnt til viðræðna milli Íslands, Bretlands og Hollands. En jafnframt var sagt að ef slíkar viðræður leiddu ekki til niðurstöðu eða ef slíkar viðræður færu ekki fram áskildi Alþingi sér rétt til þess að fella greiðsluskylduna eða ríkisábyrgðina í þessu tilviki niður einhliða. En það er horfið í nýju útgáfunni. Ég held að með því að sleppa vöxtunum úr greiðsluhámarkinu, taka þá út fyrir sviga, sem þýðir að Ísland getur þurft að borga tugmilljarða í vaxtagreiðslur á ári — jafnvel þó að við stöndum frammi fyrir stöðnun í efnahagslífinu og enginn hagvöxtur verði getum við þurft að borga tugi milljarða í vaxtagreiðslur — er mjög mikilvægur hluti efnahagslega fyrirvarans fyrir bí varðandi 2024. Þá er í rauninni sagt að verði greiðslur eftir er það bara háð viðræðunum og öryggisventill (Forseti hringir.) Alþingis farinn út.

Í þriðja lagi: Almennir lagalegir fyrirvarar sem varða sérstaklega dómstólaleiðina hafa verið útþynntir verulega.