138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ágætu ræðu og get tekið undir margt af því sem þar kom fram. Einnig vil ég segja að ég ætla mér ekki að fara hér mikið efnislega í það frumvarp sem hér liggur fyrir í þessari stuttu ræðu minni vegna þess að vel hefur verið farið yfir einstök efnisatriði af þeim sem talað hafa á undan. Ég tekið undir m.a. með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni í því sem fram kom hjá honum, einnig með formanni Sjálfstæðisflokksins sem talaði hér fyrr í dag og með þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, Illuga Gunnarssyni, að ógleymdum fjárlaganefndarmönnum okkar sjálfstæðismanna, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni.

Ég tek að mörgu leyti undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem sagði að við værum á vissan hátt stödd í leikhúsi fáránleikans. Við ræðum þetta mál eina ferðina enn, mál sem við þingmenn héldum að við værum búin að klára hér í sumar með skýrum lagatexta sem við sendum frá okkur með þeim skýru skilaboðum til Breta og Hollendinga að þetta værum við tilbúin til að gera: Skoðið þetta, kynnið ykkur þetta, ef þið samþykkið ekki þessa fyrirvara verðum við bara að byrja upp á nýtt, þetta erum við tilbúin til þess að gera og ekkert meira. Það var það sem við sögðum í sumar og það var það sem við meintum í sumar. Við meintum ekki neitt annað en það. En nú erum við komin hér aftur. Ríkisstjórnin hefur algjörlega brugðist Alþingi Íslendinga með því að hafa að engu þau lög sem voru samþykkt. Í lögum nr. 96/2009 segir skýrt, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þetta er ekkert flókið, virðulegi forseti. Þess vegna var spurning hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til hæstv. fjármálaráðherra í dag mjög góð. Hún spurði: Megum við breyta einhverju? Og svar hæstv. fjármálaráðherra var enn kostulegra, hann fór í marga hringi kringum þetta mál en svo laumaðist svar inn í hans stuttu ræðu þar sem hann sagði að frumvarpið væri nú komið í skýran og endanlegan búning. Það dugði mér alveg til að vita að skilaboðin til þingheims voru ekki bara þau að það ætti að klára þetta fyrir 10. og 11. nóvember þegar hann færi á fund fjármálaráðherra ESB og EFTA-ríkjanna: Nei, það á að klára málið svona og verið ekki að þvælast fyrir, málið er öllum kunnugt, það þarf ekkert að ræða það mikið, það hefur svo lítið breyst.

Þarna er ég bara allsendis ósammála. Menn hafa fært fyrir því mjög góð rök hér í dag hvað það er sem hefur gerst hér, málið er gjörbreytt og Ragnar H. Hall sagði, svo ég noti nú orð utanaðkomandi sérfræðings sem ekki verður vændur um að vera í pólitískum skotgröfum, að búið væri að tæta í sundur þessa fyrirvara.

Aftur að lögunum sem við samþykktum. Skilyrði var sett um að fyrirvararnir yrðu kynntir og að Bretar og Hollendingar samþykktu þá. Ég hafði náttúrlega fylgst með því í fréttum í sumar þegar verið var að reyna að komast að því hvernig þessir fyrirvarar hefðu verið kynntir. Ég talaði mikið um það í sumar í ræðum mínum á þinginu að ég hefði áhyggjur af því hvernig þetta yrði kynnt. Yrði málið kynnt þannig að verið væri að sannfæra Breta og Hollendinga um málstað okkar eða yrði þetta gert með einhverjum öðrum hætti? Ég vildi tryggja að við fengjum afritin af þessum samskiptum, ég óskaði eftir því formlega. Við fengum einhverja málamyndatölvupósta sem var náttúrlega hvergi nærri nóg. Síðan bárust fréttir af einhverjum sem skrifuðu minnisblöð í flugvélum, en alltaf komu fréttir frá ríkisstjórninni um að þetta væru bara fínar viðræður, þetta væri allt á réttri leið.

Svo segir í frumvarpinu, með leyfi forseta, á bls. 7:

„Í samræmi við ákvæði laganna voru breskum og hollenskum stjórnvöldum kynntir þeir fyrirvarar sem Alþingi hefði samþykkt. Sú kynning fór fram með óformlegum hætti í samtölum og á fundum í Haag, London og Reykjavík, en jafnframt sendi forsætisráðherra starfsbræðrum sínum í löndunum tveimur bréf þar sem afstaða Alþingis var útskýrð og óskað eftir fundi æðstu stjórnvalda ef á þyrfti að halda.“

Hæstv. forsætisráðherra hefur örugglega sagt: Fyrirgefið ef ég ónáða, en ef á þarf að halda þá getum við nú kannski sest yfir þetta og rætt þetta, þetta er nú svoddan smámál.

Og síðan er talað hér um að hæstv. utanríkisráðherra hafi átt fundi með starfsbræðrum sínum í New York og fjármálaráðherra í Istanbúl.

Hæstv. utanríkisráðherra kom hér í dag og sagði stoltur frá því að hann hefði talað við marga kollega sína um þessi mál. Ég óska hér með formlega eftir því að við fáum fundargerðir af þessum fundum vegna þess að mig langar óskaplega mikið til að vita hvernig hæstv. utanríkisráðherra kynnti þeim þessa fyrirvara. Hann reyndi að halda því fram í umræðunum í dag, og það er eiginlega kostulegustu ummæli sem fallið hafa í dag, að frumvarpið sem hér er og fyrirvararnir eins og þeir munu líta út ef þetta verður samþykkt, hefðu þær afleiðingar í för með sér að fyrirvararnir okkar síðan í sumar hefðu verið styrktir.

Ég hlakka til að fá þessar fundargerðir og lesa þær því að í þeim fundargerðum birtist væntanlega afstaða bæði bresku og hollensku ráðherranna þar sem þeir segja við hæstv. utanríkisráðherra: En herra Skarphéðinsson, við viljum ekki samþykkja þetta svona eins og þið hafið samþykkt þetta. Við viljum ekki að þetta verði svona íþyngjandi fyrir ykkur, við ætlum að gera ykkur betra tilboð, við ætlum að styrkja fyrirvarana ykkar. — Hvurs lags bull er þetta eiginlega?

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom hér í dag og eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á í góðri ræðu sinni, viðurkenndi hv. þm. Guðbjartur Hannesson að fyrirvararnir hefðu ekki haldið eins og hann hefði vonast eftir. Reyndar viðurkenndi hv. þm. Guðbjartur Hannesson ýmislegt annað í ræðunni sinni vegna þess að hann sagði að hann hefði á þessum næturfundum sem fjárlaganefnd var með í sumar, á seinasta fundinum, seinustu nóttinni, gegn sannfæringu sinni bætt inn fyrirvaranum um samþykki Breta og Hollendinga og um 2024 með það að markmiði að ná betri samstöðu í nefndinni. Hann hafði sem sagt alls enga trú á verkefninu. Hann hafði enga trú á þeim fyrirvörum sem hann sjálfur mælti fyrir sem formaður fjárlaganefndar. Hvernig eigum við þá að geta ætlast til þess að Bretar og Hollendingar sannfærist um hver vilji Alþingis er ef þeir sem standa fyrir lagasetningunni hafa ekki meiri trú á verkefninu en það?

Ég verð að segja alveg eins og er að ég les núna atkvæðaskýringu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar við þetta allt saman með miklum fyrirvara vegna þess að þar segir hann, með leyfi forseta, eins og bent var á fyrr í dag:

„Við erum að taka til lokaafgreiðslu erfitt og þungt mál sem verður vonandi leitt hér til lykta. Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

Bíddu nú við. Við höfum fullvissu fyrir því. Þetta segir formaður fjárlaganefndar þegar hann fullvissar okkur, þingheim, um að vilja Alþingis verði fylgt eftir og að barist verði fyrir þeim sjónarmiðum sem hér komu fram í sumar: „Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“ Hvaða fullvissu hafði hv. þingmaður sem viðurkenndi hér í dag að þetta hefði nú staðið tæpt og að hann hefði bara hent þessu inn til að friða einhverja í nefndinni? Ég bara spyr.

Þess vegna finnst mér það algert lykilatriði í þessari umræðu, virðulegur forseti, og ég óska eftir því við hæstv. fjármálaráðherra að við fáum, nú þegar þetta mál fer til nefndar, aðgang að öllum samskiptunum, öllum minnisblöðunum sem skrifuð hafa verið eftir fundina í Haag, Reykjavík, London og Istanbúl og hvar sem fundir hafa verið haldnir. Ég óska eftir því og krefst þess að fá fundargerðir, ég krefst þess að fá minnisblaðið sem skrifað var í flugvélinni. Ég krefst þess að fá fundargerðir hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og samninganefndarinnar sem fór og átti að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga, en, eins og segir hér, „fór og kynnti með óformlegum hætti í samtölum og fundum vilja Alþingis“. Ég óttast nefnilega að það sé ekki rétt sem hæstv. fjármálaráðherra er búinn að vera að reyna að halda fram í þessu máli og sem hann reyndar gerir þessa dagana í öllum málum, að við höfum ekkert val. Og það er það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á í dag.

Við höfum val. Ég leyfi mér að halda því fram. (Gripið fram í.) Og ég vil fá að lesa þessar fundargerðir orð fyrir orð til þess að ganga úr skugga um að málstað okkar hafi verið haldið á lofti með þeim hætti að okkur Íslendingum á Alþingi Íslendinga sé sómi að. Ég óttast bara að þegar eitthvað er kynnt með óformlegum hætti í samtölum sé þetta dálítið á þessa leið:

Kæri Jens, ég vona að ég sé ekki að ónáða. — Eða: Kæru Bretar, kæru Hollendingar, afsakið ónæðið sem Alþingi Íslendinga gerir ykkur, en gætuð þið nokkuð kíkt aðeins yfir þessa fyrirvara? Við skiljum alveg ef þeir eru ykkur þungbærir, þá skulum við bara setjast niður.

Eins og ég las hér áðan var það sett í lög að kynna ætti þeim fyrirvarana og að þeir yrðu að samþykkja þá áður en ríkisábyrgðin tæki gildi. Ég túlkaði það þá þannig að ef Bretar og Hollendingar vildu ekki fallast á þessa fyrirvara væru þeir að hafna þeim. En hvað gerði íslenska ríkisstjórnin? Hún gerði nefnilega eins og segir hér í greinargerðinni á bls. 3:

„Í kjölfar lagasetningarinnar ræddu aðilar lánasamninganna saman. Fljótlega kom fram að bresk og hollensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að fallast á fyrirvara Alþingis að öllu leyti.“

Bíddu nú við. Nú ætla ég aðeins að kíkja á lagatextann. Þar stendur: „… kynna skal Bretum og Hollendingum …“ Þar stendur ekki „að einhverju leyti,“ þar stendur: „… að þeir skyldu fallast á fyrirvarana …“ En nei, ríkisstjórnin fór í samningaviðræður sem henni var ekki heimilt að fara í. Það átti að kynna Bretum og Hollendingum fyrirvarana og þeir áttu að samþykkja þá eða hafna þeim. Og hvað skyldi þá gert? Við sjálfstæðismenn sögðum hér að þá værum við bara komin aftur á byrjunarreit og þá skyldum við bara standa í lappirnar saman. Við hétum hæstvirtri ríkisstjórn stuðningi við það háttalag, að standa saman í lappirnar og fara til þessa fólks og ræða við það frá grunni öll saman, þverpólitískt með sérfræðinga. Nei, nei, þá er samninganefndin send út aftur, samninganefndin sem kom heim með ömurlega samninginn frá 5. júní sem breyttist frá ræðu til ræðu hjá hæstv. fjármálaráðherra úr glæsilegri niðurstöðu, í skástu niðurstöðuna og síðan í einu mögulegu niðurstöðuna sem hægt var að fá. Hvernig er þetta með valið?

Ég er sjálfstæðismaður, stolt af því, og einn af hornsteinum stjórnmálasannfæringar minnar er að við höfum val og við eigum að veita fólki valkosti, hvort sem það er í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða í einhverjum svona samningaviðræðum. Ef við föllumst ekki á þær leiðir sem fram eru komnar eigum við að setjast niður og íhuga hvaða aðrar leiðir eru í stöðunni. Nei, við skulum ekki gera það og af hverju ekki, virðulegi forseti? Það er út af því að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki trú á þessu verkefni frekar en verkefninu sem snýst um að loka fjárlagagatinu. Hún heldur ekki að hún geti leyst það verkefni. Hún hefur ekki trú á því að hægt sé að gera það nema með einhverjum gamaldags skattahækkunaraðferðum og hún hefur ekki trú á því að hægt sé að leysa þetta nema með því að beygja sig algjörlega í duftið.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að gera þá alla vega eitt fyrir okkur, að leyfa þinglegu meðferðinni að renna sitt skeið til enda. Hvar er t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem ég bar mikla virðingu fyrir í öllu þessu ferli í sumar? Þegar hann sagði af sér sem ráðherra var það vegna þess að hann vildi ekki takmarka vald Alþingis. Það er takmörkun á valdi Alþingis, ef það er rétt skilið hjá mér að hæstv. fjármálaráðherra hafi meint það þegar hann sagði í dag að engu yrði breytt, að frumvarpið væri komið í skýran og endanlegan búning. (Forseti hringir.)

Ég vona svo sannarlega að það sé rangur skilningur hjá mér. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, fyrst hann er búinn að gefa sig fram í andsvar við mig: (Forseti hringir.) Fáum við ekki örugglega að setja fingraför Alþingis á þetta mál aftur? Getið þið ekki gert eina tilraun enn til að breyta þessu?