138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans hreinskilna svar.

Bara til að halda því til haga er lengdin ekki markmið. Það er ekki markmið, jafngaman og það er nú að starfa hér, að vera hér í marga mánuði í viðbót og ræða Icesave. Það er markmið að fara vel yfir málið. Það sem mér fannst við læra í sumar var það — og við sjáum það ef við tökum umræðuna: Fyrst töluðum við t.d. um að hafa prósentu af landsframleiðslu varðandi efnahagslega fyrirvara, sem breyttist í síðan prósentu af hagvexti, bara svo dæmi sé tekið. Og mjög margt af því sem menn sáu ekki fyrir var síðan mikið umræðuefni seinna. Það er ekkert vandamál fyrir þingmenn að vinna hratt og örugglega. Ég bið hæstv. ráðherra að tala ekki eins og hann sé, eins og ég sagði við hæstv. utanríkisráðherra í dag, gestur hér inni. Hæstv. ráðherra ákveður það ásamt samstarfsflokki sínum hvort menn ætla í fullri alvöru að skoða þetta og sjá hvort einhverjir gallar eru hér á ferðinni sem komið hafa málefnaleg rök fyrir. Ragnar Hall, sem menn vitna mikið í, hefur t.d. sagt skoðun sína á þessum breytingum og hún styður ekki málstað hæstv. ráðherra.

Það sem ég bið hæstv. ráðherrann um að gera er það sem við hefðum átt að gera fyrr, en til lítils að ræða það. Ég bið um að gerð verði heiðarleg tilraun til þess að menn setjist yfir þetta af fullri alvöru, því að við gerum ekki meira í þessu. Við klárum þetta væntanlega núna og þá er ekki aftur snúið. En eru menn í ríkisstjórnarflokkunum tilbúnir að fara í alvöru yfir málið (Forseti hringir.) og sníða af vankantana ef þeir eru til staðar?