138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær spurningar sem hv. þm. Pétur Blöndal spurði hér áðan eru virkilega verðugt umhugsunarefni. Hann spurði m.a.: Hvaða áhrif hefur það eða getur það haft — við erum auðvitað að tala um óorðna hluti — að fyrirvararnir eru að stórum hluta til færðir úr íslenskum lögum yfir í samninginn sem, eins og hann bendir réttilega á, á að túlka eftir breskum lögum og ef ágreiningsmál koma upp verður dæmt eftir þeim fyrir enskum dómstólum?

Ég get ekki svarað þessum spurningum hv. þingmanns. Ég hef reynt eins og hann að lesa mig í gegnum þetta en þetta er eitt af þeim atriðum sem ég get ekki svarað að svo stöddu. Ég tel alveg gríðarlega mikilvægt að fjárlaganefnd leggi vinnu í að fara einmitt yfir þennan þátt, þ.e. hvort það hafi áhrif í þessu sambandi að þessir fyrirvarar, þessir öryggisventlar að því marki sem þeir standa enn þá, eru færðir úr íslenska lagatextanum yfir í samningana sjálfa sem lúta öðrum skýringar- og túlkunarreglum en íslensku lögin. Þetta eru mjög athyglisverðar og góðar spurningar og ég held að fjárlaganefnd þurfi að reyna að átta sig á þessu vegna þess að svarið er ekki sjálfgefið.

Það eru auðvitað fleiri atriði í þessu sambandi sem menn þurfa að átta sig á. Ég hef t.d. ekki heyrt neina þingmenn eða hæstv. ráðherra gera tilraun hér í dag til þess að átta sig á því hvaða áhrif þessi útvötnun á hinu svokallaða Ragnars H. Halls-ákvæði hefur varðandi meðferð forgangskrafna. Við vitum bara að Ragnar (Forseti hringir.) telur að málið hafi verið skemmt mikið. En við höfum ekki heyrt neinar útleggingar á því hér hverjar (Forseti hringir.) afleiðingar menn telja að það hafi.