Atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir

Föstudaginn 23. október 2009, kl. 09:06:58 (0)


138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á sama mál. Ég, eins og fleiri, hrökk verulega við þegar ég heyrði og sá ræðu hæstv. ráðherra þannig að ég las hana frá fyrsta staf til þess síðasta í gærkvöldi og verð að segja að þetta er mjög undarlegt. En ég hef hins vegar ákveðna samúð með ráðherranum. Við verðum að átta okkur á því að hann hélt eflaust að hann væri á litlum félagsfundi hjá Samfylkingunni þegar hann horfði síðan beint í augun á forseta ASÍ, sem er vitanlega eins og eitt af málverkunum inni í herbergi Samfylkingarinnar, þannig að það er ekkert skrýtið við það. (Gripið fram í.) En að segja að gengisfellingin hafi fært peninga frá íslensku launafólki til sægreifastóriðju er vitanlega óábyrgt. Það er alveg út úr kú að halda því fram að gengisfellingin hafi tekið peninga (Gripið fram í.) úr vasa launafólks og fært þá yfir í einhvern annan vasa. Ráðherrann hlýtur að þurfa að skýra nákvæmlega hvað hann á við með þessu. Í hvaða vasa var sótt og hvert voru peningarnir færðir? Gengisfellingin hafði áhrif á afkomu heimila. Hún hafði líka áhrif á afkomu fyrirtækjanna vegna þess að tekjur lækkuðu en skuldir hækkuðu líka, menn mega ekki gleyma því. Þau skilaboð sem hæstv. ráðherra sendir atvinnulífinu og um leið heimilunum í landinu, því að þau lifa að sjálfsögðu af því að hafa næga atvinnu, eru þau að honum er nokkuð sama þó að hann hleypi öllu í bál og brand á vinnumarkaði, nákvæmlega sama á meðan hann getur talað upp í eyrun á þeim sem helst eltast við skoðanir hans.

Ég krefst þess að við tökum málið upp eins fljótt og hægt er við hæstv. ráðherra. Hann verði fenginn ekki seinna en eftir næstu þingviku, þ.e. kjördæmavikuna, og látinn svara fyrir þessar ávirðingar sínar og þá staðreynd að hann hleypir með þessu, að mínu mati, öllum hugmyndum um sátt í samfélaginu á atvinnumarkaði í uppnám. Ég spyr mig: (Forseti hringir.) Hvað verður um stöðugleikasáttmálann eftir svona lagað?