Atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir

Föstudaginn 23. október 2009, kl. 09:11:20 (0)


138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil einnig taka undir þau orð sem fallið hafa um hæstv. félagsmálaráðherra. Framganga hæstv. ráðherra hlýtur að vekja mikla furðu um þessar mundir. Núna fyrir stuttu stóð hæstv. félagsmálaráðherra á stórum fundi og steytti hnefana út í loftið og söng „Internasjónalinn“. Það er hægt að sjá myndir af þessu í fjölmiðlum og maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta yfir því. Síðan kemur hæstv. ráðherra fram núna á öðrum stórum fundi og hreytir þar út úr sér að setja verði viðskiptalífinu skýr mörk og við megum ekki verða ginningarfífl stóriðjuútgerðarauðvalds o.s.frv. Maður hlýtur að spyrja sig, virðulegur forseti, hvers lags orðbragð þetta er sem hæstv. félagsmálaráðherra viðhefur. Það er engan veginn við hæfi að hæstv. ráðherra tali með þessum hætti til atvinnulífsins.

Ég vil setja þetta í samhengi við önnur ummæli sem hæstv. félagsmálaráðherra, þáverandi hv. þingmaður í framboði, viðhafði 15. apríl á stórum framboðsfundi í Garðabæ um sína pólitísku andstæðinga. Þar kallaði hv. þingmaður og hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason pólitíska andstæðinga sína fífl. Þetta var á fundi þar sem mikið var af unglingum og þeim var auðvitað öllum lokið. Það er ekki venjan að pólitískir andstæðingar kalli hver annan fífl og núna kemur það aftur fyrir að hæstv. ráðherra kallar hluta af viðskiptalífinu ginningarfífl. Virðulegur forseti. Ég vil gera alvarlega athugasemd við þetta. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að sýna svona hroka þegar maður er í embætti virðulegs ráðherra.