Atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir

Föstudaginn 23. október 2009, kl. 09:23:50 (0)


138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrr í umræðunni kom hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir upp og ræddi dóm Hæstaréttar sem kveðinn var upp í gær og stöðvaði frekari framkvæmdir við Vestfjarðaveg 60. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég lít á þessa niðurstöðu sem gríðarlegt áfall einfaldlega vegna þess að það hefur verið mikil barátta í þessu kjördæmi að reyna að tengja þær byggðir sem þar eru, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp, við höfuðborgarsvæðið eða suðurleiðina. Og allt frá því að ég fór í framboð eða inn á þing var það augljóst að þarna er stórt svæði sem hefur alls ekki notið sömu þjónustu eða sömu fyrirgreiðslu hvað varðar innri þjónustu og önnur landsvæði í landinu.

Það er því dapurlegt að fylgjast með því að nú er búið að taka allt að fimm ár að reyna að finna vegarstæði sem er ásættanlegt og þar virðast þvælast fyrir okkur þær lagasetningar sem settar hafa verið og það ferli sem þarf til varðandi þessar framkvæmdir. Það er augljóst að við þurfum að fara aðeins yfir þetta og átta okkur á hvaða forgang við ætlum að hafa varðandi heilu landshlutana eins og Vestfirðina. Þar er mikið og öflugt atvinnulíf hvort sem það er sjávarútvegurinn eða ferðaþjónustan en við búum við að við getum ekki komið þessum landshluta í eðlilegt vegarsamband einfaldlega vegna þess að regluverkið virðist standa þar í vegi.

Að vísu koma til ásakanir um að þarna séu ákveðnir formgallar og það er búið að reyna að fara með málið fyrir dóm, fyrst fyrir héraðsdóm og svo Hæstarétt. Ég held að það sé ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt og reyna að koma þessu máli í gegn vegna þess að þetta er lífsspursmál fyrir þetta svæði. Það átti að tengja þessi svæði fyrst og síðan að klára hringinn á Vestfjörðum þannig að Vestfirðirnir yrðu inni í vegasamgöngum og þeirri þjónustu sem er almennt er boðið upp á í landinu. Á meðan þetta bíður er augljóst að við þurfum að tryggja að samgöngum með Baldri yfir Breiðafjörð verði við haldið (Forseti hringir.) með fullnægjandi hætti og ég ætla að vona að við þingmenn kjördæmisins og allir þingmenn á Alþingi stuðli að því að svo verði.