138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Þótt ég væri ekki sammála öllu sem hún sagði var þetta málefnaleg ræða að mínu viti, hún færði rök fyrir skoðunum sínum og okkur ber að virða skoðanir hvers annars.

Mig langar þó að spyrja hv. þingmann, af því að hún sagði að þegar hryðjuverkalögin voru sett á okkur sl. haust hefði hún orðað það þannig að það hefði alveg eins mátt henda á okkur sprengju. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann um hvort henni finnist eðlilegt að í þessum nýju samningum sé samið um að íslenska ríkið og Tryggingarsjóðurinn eigi engar kröfur á Breta og Hollendinga gagnvart því þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalögin. Hvort henni finnist eðlilegt að það sé inni í þessum samningi að við mundum falla frá þeim rétti, því að eins og hún kom að svo réttilega í máli sínu var þetta ekki góður gjörningur.