138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir ræðu hennar þótt ég sé henni hjartanlega ósammála í nærri hverju einasta orði sem sagði. Hún talar mikið um ábyrgð og þetta sé leiðindaverk en eins og kom fram í ræðum í gær eru þeir sem bera ábyrgð á þessum Icesave-samningum ekki staddir hér til að svara fyrir sig. Það eru fyrst og fremst eigendur Landsbankans. Það er kannski rétt að halda því til haga í umræðunni og við skulum minna alþjóð á að það er ekki stjórnsýslan ein sem ber ábyrgð á þessu.

Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra í gær að engin efnisleg breyting hafi orðið á því frumvarpi sem nú liggur fyrir frá því sem áður var. Mig langar til að spyrja þingmanninn þessarar spurningar: Telur hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir að það sé engin efnisleg breyting á því frumvarpi sem nú liggur fyrir og þeim lögum sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. og er hún sammála fjármálaráðherra um það?