138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:04]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef fengið mikla gagnrýni á mig að undanförnu fyrir afstöðu mína til þessa frumvarps og mig langar til að reyna að gera nokkra grein fyrir því hvernig ég sé málið núna eins og það liggur.

Það er margt sem við getum lært af skáklistinni, æðimargt og það var einmitt nefnt við mig í gær hvort ég vildi ekki halda skáknámskeið fyrir þingmenn og ráðherra. Það er í vinnslu. En það er tvennt sérstaklega sem við lærum af skákinni sem mér hefur verið hugsað til núna að undanförnu. Eitt er það að við erum alltaf að gera mistök, stöðugt og hver einasta skák, jafnvel okkar allra besta, byggir á samspili af afleikjum og mistökum og góðum, vel pældum, sniðugum, klókum leikjum. Sú staða sem er á borðinu hverju sinni er arfleifð af því sem á undan fer, arfleifð af afleikjum okkar og góðu leikjunum. Þá er verkefnið þetta: Að festast ekki í eigin mistökum sem á undan hafa farið, festast ekki í þeim heldur meta stöðuna eins og hún er á borðinu blákalt, ekki eins og við vildum óska að hún væri, ekki eins og hún hefði getað orðið heldur eins og hún er og reyna að finna bestu leikina út úr þeirri stöðu sem við blasir. Í þessum anda ætla ég ekki að fara að tíunda öll mistökin sem hafa verið gerð á Íslandi undanfarin ár eða í Icesave-málinu undanfarin missiri, ég ætla ekki að gera það. (TÞH: Ekki gefa svar.) Icesave er og verður alltaf arfleifð hins falska góðæris og það er og verður óumflýjanlegt úrlausnarefni vegna spilaborgarinnar sem hrundi.

Þá er verkefnið í stöðunni: Hvar liggja meiri hagsmunir fyrir minni? Hvar eru úrlausnarefnin og hverju verður að fórna til að ná meiru fram? Í mínum huga núna í þessu Icesave-máli eru tvær meginspurningar: Ætlum við að leiða málið til lykta með því sem þó er í hendi núna eða sprengja það í loft upp og hafa það hangandi yfir hausnum á okkur með öllu því sem mögulega fylgir? Og önnur spurning: Þegar heildarmyndin er skoðuð, heildarmyndin sem við blasir í íslensku samfélagi og þeim gríðarstóru verkefnum sem við þurfum að taka á okkur, er þá skynsamlegra að innbyrða þá ávinninga sem þó eru fyrir hendi í því frumvarpi sem hér liggur fyrir þinginu eða, eins og ég sagði áðan, sprengja málið upp?

Í öllu þessu langar mig að minna á einn sameiginlegan útgangspunkt sem við megum aldrei gleyma og verðum að halda til haga. Það varðar ekki hver gerði mistök hvar eða hvernig hefði átt að gera hlutina öðruvísi þarna en ekki hinsegin heldur varðar stöðu Íslands. Í upphafi þessa máls og allar götur síðan hefur staða Íslands verið mjög þröng, staðan á borðinu hefur hvorki verið opin né auðveld heldur mjög þröng, aðþrengd, vígstaðan veik. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hér hrundi allt, hér hrundi heilt fjármálakerfi. Í samfélögum þar sem svo mikið hrynur er vígstaðan eðli málsins samkvæmt veik. Hvert hefur í raun verið okkar verkefni eins og ég lít á málið? Það er að reyna með hverju skrefi að bæta þessa vígstöðu, bæta fyrir þau mistök sem voru gerð og hafa verið gerð, reyna að finna leiki sem gera stöðuna þó viðráðanlegri en hún var í leikjunum þar á undan. Ég lít svo á að þetta einmitt höfum við gert, hefur þingheimur gert í sumar. Í rauninni get ég bara talað af persónulegri reynslu hvað þetta mál varðar frá því í sumar vegna þess að ég kom inn á þing í vor eins og allir vita og mér fannst við ná firnagóðum árangri. Það var ekki auðvelt vegna þess að þetta mál er og verður aldrei auðvelt. Allir í öllum flokkum þurftu að leggja mikið á sig og ýmislegt að vera undir en við náðum dálítið merkilegum árangri. Við sameinuðumst um mikilvæga fyrirvara, efnahagslega og lagalega, í því hvernig ætti að leiða þetta mál til lykta. Einu er gott að halda til haga vegna þess að svo margt blandast inn í þessa umræðu, Alþingi samþykkti það og hefur samþykkt allan tímann, íslensk stjórnvöld hafa sagt alveg frá því haustið 2008 að Ísland muni borga. En allt tal núna um að Ísland borgi ekki er löngu, löngu liðið.

En hvað er það svo sem einmitt er hluti af stöðunni á borðinu? Jú, það er að Ísland er ekki eitt í þessu máli. Styrkurinn af því sem núna liggur á borðinu er að mínu mati að þetta er ekki lengur einhliða yfirlýsing Íslands um hvernig leiða á málið til lykta heldur er búið að nást samkomulag sem tekur inn meginanda þeirra fyrirvara sem Alþingi samþykkti í sumar. Það ferli hefur ekki verið auðvelt. Það sagði við mig maður sem er kunnugur öllum hnútum fyrir stuttu síðan að Bretar og Hollendingar hefðu aldrei nokkurn tíma samþykkt það sem nú er á borðinu ef það hefði verið borið á borð fyrir þá í vor eða byrjun sumars, aldrei. Vígstaðan breyttist í sumar. Hún breyttist líka út á við. Hún breyttist líka úti í heimi. Umheimurinn sá miklu frekar hvað þetta var okkur erfitt. Umheimurinn, rétt eins og við sjálf, þingheimur og þjóðin sem lærði að skilja málið miklu betur, ítarlegar og velta því fyrir sér frá öllum köntum. Það sama gerðist út á við. Það varð til meiri skilningur á stöðu Íslands og þess vegna held ég að sé rétt sem þessi góði maður sagði fyrir nokkrum dögum við mig að það sem er á borðinu núna, það sem Bretar og Hollendingar hafa þó fallist á, hefðu þeir aldrei fallist á í vor eða sumar. Og hvað er það sem liggur á borðinu? Jú, það er þrátt fyrir allt þak, það er greiðsluþak til staðar. Núna er því haldið rækilega til haga að Ísland viðurkenni ekki lagalegar skyldur sínar til að greiða og þetta er líka inni í sameiginlegri yfirlýsingu landanna þriggja. Það bætir vígstöðuna enn frekar vegna þess að ég lít svo á að við vitum ekki hver afdrif þessa máls verða inn í framtíðina. Það er innifalið að það verða e.t.v. fleiri viðræður o.s.frv. en við erum að bæta vígstöðu okkar, við erum að því og höfum verið að gera það.

Ragnars Halls-ákvæðið margumtalaða, sem mikið hefur verið rætt um, er núna komið þarna inn líka, inn í samninginn. Ekki sem einhliða yfirlýsing Íslands heldur komið inn. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það var búið að semja um þessa hluti á annan hátt. Nú er þetta komið inn. Það er að sjálfsögðu ávinningur. Friðhelgisréttindum er klárlega haldið til haga, viðræður sem ég nefndi áðan standa okkur opnar og það verður sameiginlegt verkefni ríkjanna að ná sem mestum eignum úr Landsbankanum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og það skiptir líka miklu máli að við höldum þar firnavel á spilum og skipum harðsnúnu teymi fólks með mikla reynslu og þekkingu að ná einmitt sem mestu úr Landsbankanum.

Hverjir eru ókostirnir, hverjir eru veikleikarnir, hvað er það sem við gefum eftir? Auðvitað er það alltaf ótal margt. Ég hefði viljað sjá þessa samninga, í fyrsta lagi hefði ég haustið 2008 viljað segja nei. Við borgum ekki krónu, látum á þetta reyna. Við getum endalaust farið yfir slík atriði, endalaust, en staðan á borðum er þessi: Miðað við það sem okkur ávannst í sumar er þetta að mínu persónulega mati ásættanleg niðurstaða. Kosturinn er sá líka að í stað einhliða yfirlýsingar er komin inn í þetta þessi þriggja landa lausn í þessari stóru og miklu milliríkjadeilu.

Þá kemur að meginspurningunni: Viljum við leiða þetta mál til lykta eða ekki? Það er mitt mat í heildarmyndinni, í heildarmynd þeirra stóru og miklu verkefna sem fyrir liggja í íslensku samfélagi að það sé heillavænlegast núna með þeim ávinningum sem við höfum náð við mjög erfiðar aðstæður og þær verða líka erfiðar núna síðustu vikur. Ég minni á að ráðherra úr ríkisstjórn sagði af sér og það gerist ekki á hverjum degi, hverju ári eða hverjum áratug á Íslandi að ráðherra í ríkisstjórn segi af sér vegna þess að hann sé ósáttur við það sem er á borðinu. En það einmitt líka spilaði inn í þessa vígstöðu Íslands og hjálpaði málinu eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur fjallað um (Utanrrh.: Í ræðunni.) þannig að margt hefur þarna spilað saman.

Það má eins og ég segi gagnrýna mig harðlega fyrir hitt og þetta og ég hef verið sökuð um uppgjöf og annað. Ég lít ekki á þetta sem uppgjöf. Ég lít á málið núna og segi: Það er mitt einlæga, heiðarlega mat að við eigum að ljúka þessu máli á þessum forsendum. Er þetta gott mál? Nei, þetta verður alltaf alveg ofsalega erfitt mál og þungur biti en ég held að það sé meira virði og minni áhætta fyrir Ísland að ganga frá því svona með þeim ávinningum sem við þó höfum miðað við alla þessa þröngu stöðu, allt það sem hefur gerst undanfarin missiri. Ég skil að sjálfsögðu og virði sjónarmið þeirra sem eru á öndverðum meiði, að sjálfsögðu. Þau eiga fullan rétt á sér. Þau sjónarmið hafa líka eins og hér hefur komið fram hjálpað til í því að bæta vígstöðu Íslands. En þá eiga þau, sem gagnrýna þetta hvað harðast og ganga hvað harðast fram gagnvart þeim sem nú segja að þeim finnist þetta ásættanlegt, ekki heldur að afbaka forsögu málsins því hún er löng og hún er erfið og þar bera margir ábyrgð. Við erum ekki að koma að taflinu í upphafsstöðu. Við komum að stöðunni í taflinu miðju en hins vegar nálgast endatafl í gríðarlega aðþregndum aðstæðum.

Ég veit ekki hvort ég á að hafa þetta mikið lengra, frú forseti. Ég vildi bara skýra meginsjónarmið mín og segja að ég er stolt af því sem gerðist í sumar. Mér fannst þingheimur við erfiðar aðstæður sameinast um að reyna að finna bestu lausnina, fólk úr öllum flokkum, allir flokkar sameinuðust um það og við eigum að halda þeim ávinningum til haga, hvort heldur sem fólk vill núna hafna þessu alfarið eða segja: Nú er kominn tími til að ganga frá málinu með þeim ávinningum úr þröngri stöðu Íslands sem eru þó þarna.

Það er mín afstaða, frú forseti, og ég læt máli mínu lokið.