138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu sem var ekki uppfull af einhverjum upphrópunum og frösum. Mér fannst hún fara mjög málefnalega yfir málið og gera grein fyrir sinni stöðu þar.

Mig langar hins vegar að velta því upp, af því að hún kom inn á það að hún væri ánægð með þá samstöðu sem náðist hér í sumar og ég tek heils hugar undir með henni um það, þá langar mig að velta upp þeirri spurningu við hv. þingmann hvort við hefðum ekki átt að fylgja þeirri samstöðu eftir, þ.e. þegar lögin voru samþykkt á Alþingi 28. ágúst, hefði ekki verið skynsamlegra fyrir okkur þá að haldast í hendur áfram því að ég tel að við höfum gert mikil mistök í framhaldinu. Við hefðum átt að nýta krafta þingsins eins og við gerðum í sumar og kynna málstað okkar út á við og fara og tala við alþjóðasamfélagið, alveg sama hvar við erum í flokki eða pólitík, og að koma þessum skilaboðum betur á framfæri en mér finnst hafa verið gert.

Þá velti ég því líka upp við hv. þingmann hvort við hefðum þá ekki átt að skipta um stefnu í staðinn fyrir það að setja aftur sömu samninganefndina, þó að ég sé ekki að deila á þá einstaklinga sem þar eru, heldur að það hefði verið skynsamlegra að skipa þverpólitíska nefnd sem reyndi að útfæra þetta með öðrum hætti. Það eru mjög margar þversagnir búnar að vera í þessu á undanförnum vikum eftir að niðurstaðan kom, í fyrsta lagi frá Alþingi og eins þegar menn hafa verið í samskiptum við erlenda aðila og þarf svo sem ekki að eyða tíma í að fara yfir það.

Hv. þingmaður kom hér inn á lagalegu fyrirvarana og þá langar mig að velta upp vegna þessa Ragnars Halls-ákvæðis, sem að hans eigin sögn er búið að tæta í sundur en hæstv. utanríkisráðherra er ekki sammála því og telur að fyrirvararnir hafi í raun og veru styrkst. Hæstv. utanríkisráðherra segir að fyrirvararnir hafi styrkst núna, (Gripið fram í.) þ.e. þeir fyrirvarar sem voru fyrir. Er hv. þingmaður sammála hæstv. utanríkisráðherra um að þeir fyrirvarar sem við samþykktum hér 28. ágúst með ríkisábyrgðinni hafi styrkst við þá breytingu sem liggur fyrir núna á Alþingi?