138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst spyrja um það sem hv. þingmaður var að tala um að kynna niðurstöðuna. Það er þannig í frumvarpinu síðan í sumar að það öðlast ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa samþykkt formlega að gangast við þeim skilyrðum sem þar eru sett og öðruvísi tekur ekki ríkisábyrgðin gildi. Það sem er að gerast núna með þessa fyrirvara, án þess að ég ætli að fara í neinar lagalegar þrætur um það, þá er verið að breyta því þannig að nú er verið að skrifa lögin að samningunum sem falla undir breska lögsögu en ekki eins og var gert í upphafi hér að þá átti að sníða samningana að frumvarpinu.

Mig langar til að velta því upp við hv. þingmann hvort hún telji þetta ekki veikja stöðu málsins. Eins vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan að ég var ekki að saka neinn um að hafa ekki farið í einhverja vinnu og vegferð að kynna málið heldur hefði ég talið skynsamlegra að við hefðum bara skipað þverpólitískan hóp sem hefði haft það markmið að kynna alþjóðasamfélaginu (Forseti hringir.) þá góðu og breiðu samstöðu sem náðist á þingi í sumar.