138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít náttúrlega svo á að málið sé hér inn komið til að fá þinglega meðferð eins og öll frumvörp. Má breyta því? Þingið ákveður það sjálft, hlýtur að vera. Mín persónulega afstaða liggur fyrir.

Hv. þingmaður spyr: Getum við gert betur? Hvað þýðir sú spurning í raun? Getur Alþingi gert betur, hefði Alþingi getað gert betur t.d. í fyrirvörunum í sumar? Hefðu fyrirvararnir átt að vera öðruvísi en þeir voru o.s.frv.?

Það sem liggur fyrir núna og hefur auðvitað legið fyrir allan tímann er að hvað svo sem Alþingi getur gert betur eru þetta tvíhliða samningar, þetta eru samningar milli ríkja. Það að gera betur snýr auðvitað líka að Bretum og Hollendingum. Ég lít svo á að einmitt það sem við gerðum svo vel í sumar var auðvitað afrakstur gríðarlegrar vinnu sem hafði farið fram á undan við að reyna að koma Íslandi í örlítið betri vígstöðu frá því sem hafði verið haustið 2008. Ég lít svo á að núna sé komið að þeim punkti að loka málinu. Við höfum gert allt sem við getum í þessu máli núna og það verði að hrökkva eða stökkva. Það er mitt persónulega mat.

Alþingi getur komið aftur með einhverjar yfirlýsingar fyrir sjálft sig en á endanum er þetta milliríkjasamningur og ef við ætlum að leysa málið er það þannig sem það er leyst. Ég lít svo á að einmitt út af því að meginandi fyrirvaranna frá því í sumar er núna skjalfestur eigum við ekki að hætta á að það springi í loft upp heldur ljúka málinu á þessum forsendum.