138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir mjög málefnalega og á margan hátt skemmtilega ræðu. Hún tekur samlíkingu af þeirri list sem hún þekkir væntanlega manna best á þinginu, skáklistinni, og líkir vinnunni við Icesave-málið við skák sem stendur yfir þó hún hafi orðað það þannig að við værum komin nokkuð nálægt endatafli.

Ég hef staðið í þeirri meiningu að í skákinni væru bara þrír kostir í stöðunni, sigur, tap eða jafntefli, og í þessu máli ef við tökum þessa Icesave-deilu sérstaklega hefur staða Íslands, ríkisstjórn Íslands, ekki bara eingöngu núverandi ríkisstjórn heldur fyrri ríkisstjórnir einnig, verið í þeirri stöðu gagnvart Bretum og Hollendingum að vera eins og byrjendur að tafli á móti stórmeistara. Við þá stöðu hlýtur byrjandinn að sækja sér þekkingu. Það gerðum við góðu heilli í sumar, þingmenn, við sóttum okkur þekkingu okkar færustu manna til að reyna að jafna þá stöðu sem okkur var stillt upp fyrir og stefndi bara hreinlega í heimaskítsmát, svo maður taki samlíkinguna í skáklistina.

Enn og aftur erum við komin að þeirri stöðu núna að við erum við það að tapa leiknum. Þá hljótum við að sjálfsögðu að sækja enn og aftur til okkar færustu einstaklinga og fara í málið að nýju og íhuga það hvaða kost við eigum. (Gripið fram í.) Hvern af þessum þremur kostum eigum við að velja? Ég kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvernig hún metur stöðuna gagnvart þessum þremur möguleikum sem við eigum í skákinni.