138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu og ýmislegt hefur komið fram sem máli skiptir. Mér finnst sá tónn vera gegnumgangandi hjá þeim hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem hér hafa talað að við séum stödd á þeim stað að við verðum að klára málið hvað sem það kostar. Og við verðum að klára málið eins og það er, hvað sem það kostar. Ég er ósammála þessu en ég tel að þeir sem þannig tala þurfi líka að átta sig á því hvað þetta kostar, hvaða afleiðingar þær breytingar sem hér er verið að leggja til á ríkisábyrgðarlögunum, hvaða áhrif þessi breyting mun raunverulega hafa.

Hér hefur verið rifjað upp margsinnis í þessari umræðu að í lok sumars var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tekið hafði verulegum og raunverulega grundvallarbreytingum í meðförum þingsins. Mjög margir þingmenn, flestir sem tjáðu sig, lýstu því yfir að þeir teldu að málið hefði batnað til mikilla muna. Sumir töldu að það hefði batnað svo mikið að þeir gátu samþykkt það. Aðrir vildu ekki leggja stein í götu þess og sátu hjá og þriðji hópurinn greiddi atkvæði gegn en allir voru sammála um að málið hefði tekið miklum og jákvæðum breytingum. Hér kepptust menn, ekki síst úr stjórnarflokkunum, við að koma í ræðustól og lýsa því sem miklum sigri fyrir þingið hvernig til hefði tekist og hvernig málið hefði verið afgreitt og hversu jákvæð og mikilvæg áhrif það hefði til að standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Nú liggur hins vegar fyrir frumvarp sem felur í sér verulegar breytingar á þeim lögum sem samþykkt voru 28. ágúst, verulegar breytingar. Það er ekki óeðlilegt að hér sé gerð krafa um að þeir sem töldu að málið væri komið í gott horf 28. ágúst, að hagsmunum Íslands væri borgið með þeirri niðurstöðu sem þá varð, geri grein fyrir að hvaða leyti þeir telji að málið í þeim búningi sem það lítur út í dag fullnægi þeim markmiðum sem þeir settu sér í sumar um öfluga fyrirvara, þétta fyrirvara og annað þess háttar, svo rifjuð séu upp orð sem höfð voru uppi í þessu sambandi.

Ég hef fyrr í þessari umræðu drepið á nokkra þætti sem ég tel nauðsynlegt að skoða af því að það er grundvallarforsenda þegar þingið tekur afstöðu til þessa máls að þingið skoði með sjálfstæðum hætti hvaða munur er á málinu núna og í lok ágúst þannig að menn átti sig á því hvað þeir eru að gera. Ég hef hlustað eftir því í þessari umræðu hvort skýringar hafi komið fram við mörgum af þeim atriðum sem ég hef nefnt en ég hef ekki orðið var við það. Hæstv. fjármálaráðherra á þess hugsanlega kost að koma inn á það í síðari ræðu sinni sem nú styttist í en það er mikilvægt að minnsta kosti ef það kemur ekki fram við 1. umr. að það verði lagst ofan í það í meðförum fjárlaganefndar. Ég hef nefnt t.d. muninn á lagalegu fyrirvörunum í 2. gr. frumvarpsins og þeim fyrirvörum varðandi lagalega þætti sem voru inni 28. ágúst. Það þarf að skoða nákvæmlega hvaða breyting hefur þarna orðið.

Í annan stað þarf að skoða samspil við stjórnarskrána, bæði hvað varðar hugsanlegt framsal á dómsvaldi til EFTA-dómstólsins og jafnvel dómstóls Evrópusambandsins. Það þarf að skoða hvaða áhrif það hefur ef viðræður sem munu eiga sér stað undir vissum kringumstæðum leiða ekki til niðurstöðu. Það var tekið fyrir það með ákveðnum hætti í lögunum 28. ágúst en ekki í dag.

Í þriðja lagi þarf auðvitað að skoða Ragnars H. Halls-fyrirvarann hvernig hann virkar. Hér hefur verið vísað til orða Ragnars sem gefur lítið fyrir þá niðurstöðu sem nú er orðin. Það þarf að skoða efnahagslegu fyrirvarana, hvaða áhrif það hefur að tveimur mikilvægum öryggisventlum varðandi hina efnahagslegu fyrirvara hefur verið kippt út. Það þarf að skoða líka hvort Alþingi hafi heimild til að veita jafnopna ríkisábyrgðarheimild og hér er um að ræða. Síðan þarf eins og við nefndum í gærkvöldi (Forseti hringir.) að skoða með gagnrýnum hætti hvaða lagalegu áhrif það hafi að fyrirvararnir eru (Forseti hringir.) teknir út úr íslenskum lögum og (Forseti hringir.) settir inn í samninga sem lúta enskum túlkunarreglum. (Forseti hringir.) Svo mætti fjárlaganefnd skoða í síðasta lagi hvað sé orðið eftir af ákvæðum sem voru í lögunum frá 28. ágúst um eftirlit og aðkomu Alþingis (Forseti hringir.) af framkvæmd samninganna sem skrifað var í löngu máli um í nefndaráliti og raunar lagatexta líka þegar málið var klárað 28. ágúst.