138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað vissi ég að svar hæstv. fjármálaráðherra yrði á þann hátt sem það var. Uppfullt af hræðsluáróðri. Þannig hefur ríkisstjórnin unnið þetta mál, þannig hefur Samfylkingin sérstaklega unnið þetta mál undir dyggri leiðsögn hæstv. fjármálaráðherra. Hér hefur þingmönnum og þjóðinni verið hótað trekk í trekk, með dagsetningum, með því að hér færi allt í kalda kol ef við mundum ekki undirgangast þessa Icesave-samninga. Þetta er óhuggulegt hvernig málið er komið. Alþingi setti lög 28. ágúst. Alþingi setti lög en þau lög voru notuð sem skiptimynt við Breta og Hollendinga, skiptimynt, og hér standa stjórnarliðar uppi og segja að það sé hægt að semja um lög.

Frú forseti. Ég fordæmi þetta mál. Hafi þeir skömm fyrir sem eru komnir með þetta aftur fyrir þingið. Framsóknarflokkurinn heldur áfram að vera á móti þessu máli og standa með komandi kynslóðum.