Landflutningalög

Mánudaginn 02. nóvember 2009, kl. 15:45:07 (0)


138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[15:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til landflutningalaga sem hæstv. samgönguráðherra mælti fyrir hér áðan. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er um mjög efnismikið frumvarp að ræða. Í athugasemdum við þetta lagafrumvarp kemur fram að það hafi verið samið af starfshópi sem skipaður var af þáverandi samgönguráðherra 30. október 2006. Fæðingartíminn hefur því verið mjög langur enda er hér um efnismikið frumvarp að ræða. Mig langar í upphafi þessarar umræðu að spyrja hæstv. ráðherra: Tók það starfshópinn þrjú ár að semja þetta frumvarp eða er eitthvað síðan hópurinn skilaði af sér?

Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan er um miklar breytingar að ræða. Verið er að skýra réttarstöðu þeirra sem flytja vörur með landflutningum og væntanlega auka eitthvað rétt þeirra en í ljósi þess hljótum við að velta fyrir okkur hvort þetta frumvarp geti leitt af sér að flutningskostnaður með landflutningum hækki í ljósi aukinna kvaða á flutningafyrirtækin.

Ég velti líka öðru fyrir mér. Margir hafa nýtt sér póstþjónustuna í tengslum við vöruflutninga á undangengnum árum og oftar en ekki hefur verið ódýrara fyrir fólk, sérstaklega á landsbyggðinni, að nýta sér þjónustu póstsins en annarra fyrirtækja þegar kemur að því að flytja vörur víða um land. Hér er talað um að helstu breytingar í þessu frumvarpi snúi m.a. að því að ákvæði þessara laga gildi ekki um póstflutninga. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hverju það sætir. Ef við samþykkjum þetta frumvarp óbreytt, verða póstflutningar þar af leiðandi óöruggari? Býr almenningur þá við lakari vernd, sem ég tel að þetta frumvarp innleiði verði það samþykkt?

Ég vil taka fram að ég er ekki endilega neikvæður gagnvart þessari lagasetningu. Það vakna einfaldlega margar spurningar við lestur þessa frumvarps, það er mjög ítarlegt og ég á von á að hv. samgöngunefnd muni fara mjög ítarlega yfir þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver tímapressa sé á að samþykkja þetta mál, hvort við þurfum að innleiða þetta að einhverju leyti vegna þess að við erum á Evrópska efnahagssvæðinu eða hvort nefndin fái ekki allan þann tíma sem hún þarf til að fara yfir þetta mál.

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að við ræðum um frumvarp til landflutningalaga og hæstv. ráðherra hefur á undangengnum árum verið mikill talsmaður þess að lækka flutningskostnað. Ég er honum sammála um það og við hljótum, sama hvar í flokki við stöndum, að einsetja okkur að lækka flutningskostnað. Mörgum fannst sárt að horfa upp á þá þróun þegar sjóflutningar hringinn í kringum landið lögðust af. Í ljósi þess að búið er að vinna núna í þrjú ár að því að setja þetta frumvarp til landflutningalaga saman finnst mér rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvaða vinna sé í gangi í ráðuneyti hans er viðkemur sjóflutningum, þ.e. strandflutningum. Við höfum mörg talað fyrir því að æskilegt væri að við gætum búið við strandflutninga og eins og ég sagði áðan hafa stjórnmálamenn úr öllum flokkum talað fyrir að stuðla að því. Það mundi þá leiða af sér að flutningskostnaður fyrir marga í atvinnurekstri og jafnvel heimili vítt og breitt um landið mundi lækka. Við höfum því miður þurft að horfa upp á það á síðustu missirum að vöruflutningskostnaður, sérstaklega fyrir fólk á landsbyggðinni, hefur hækkað en það er kannski ekki óeðlilegt í ljósi þess að verð á eldsneyti og allt hefur hækkað stórkostlega í okkar samfélagi. Þess vegna finnst mér vert að spyrja hæstv. ráðherra hvaða vinna sé núna í gangi í ráðuneyti hans sem miðar að því að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni.

Fólk sem býr vítt og breitt um landið þarf að þola að flutningskostnaður og þar af leiðandi verð á vöru og þjónustu er mun hærra en á suðvesturhorni landsins og þar er mikill munur á. Öll hljótum við að stefna að því að reyna að gera lífskjör í landinu sem sambærilegust. Það er ekkert vafaatriði í mínum huga að landsbyggðin situr því miður eftir þegar kemur að verði á vöru sem þarf að flytja út á land í ljósi þess að flutningskostnaður er svo hár. Þess vegna væri gott að heyra hæstv. ráðherra fjalla aðeins um með hvaða hætti hann áformar að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni og þannig auka samkeppnishæfni margra byggðarlaga.

Við horfum upp á mörg samfélög sem því miður þurfa að greiða miklu hærra verð fyrir þær vörur sem fluttar eru á viðkomandi staði og það hlýtur því að vera keppikefli okkar allra, sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að reyna að lækka reikning fólks sem þarf að kaupa vöru sem flutt er um langan veg. Mér fannst ekki annað hægt í ljósi þess að hæstv. ráðherra er kominn hingað að ræða um flutning og þá flutningskostnað í landinu og við tækjum umræðu um hvaða vinna er núna í gangi í ráðuneytinu til að lækka þennan kostnað. Við hljótum að stefna að því sama marki að reyna að jafna lífskjörin í landinu, jafna aðstöðu fólks hvort sem það sem býr á Þórshöfn eða í Reykjavík. Það er áratugalöng saga að á þessum stöðum þarf fólk að greiða mun hærra verð fyrir flutning sem hefur leitt af sér mun hærra verðlag hvort sem er á olíu eða annarri vöru.

Í því samhengi má minna hæstv. ráðherra á, og ég veit að ég þarf ekki að gera það, að við í þingflokki Framsóknarflokksins höfum beitt okkur mjög hatrammlega gegn því að flutningssjóður á olíu yrði lagður niður eins og rætt hefur verið um mörg undangengin ár. Ég man að þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn kom reglulega inn á borð þingflokks framsóknarmanna sú stefna fjármálaráðherra að leggja þennan mikilvæga sjóð niður en það hefði m.a. orðið til þess að verð á eldsneyti á stöðum sem fjærst eru frá höfuðborginni stórhækkaði. Sem betur fer komum við í veg fyrir að sá mikilvægi sjóður væri aflagður því nógu hátt er verðið á eldsneyti á landsbyggðinni sem í sumum tilfellum er mun hærra en á suðvesturhorni landsins.

Umræðan sem við þurfum að fara í er mjög efnismikil og eins og ég sagði í upphafi er um að ræða mál sem gengur þvert á alla stjórnmálaflokka. Við þurfum að halda vöku okkar í því hvernig ríkisstjórnin heldur á þessum málum og þess vegna finnst mér brýnt að heyra framtíðarsýn hæstv. samgönguráðherra þegar kemur að þessu mikilvæga máli sem er eitt stærsta byggðamálið á Íslandi í dag. Við hæstv. ráðherra komum báðir úr Norðausturkjördæmi sem er eina kjördæmið sem hefur ekki snertiflöt við höfuðborgarsvæðið. Þetta mál, flutningur og flutningskostnaður, sama hvort er á vöru eða eldsneyti, skiptir fólk sem býr á því landsvæði gríðarlega miklu máli. Ég hlakka því til að heyra í hæstv. ráðherra á eftir hvaða sýn hann hafi til framtíðar til að koma til móts við fólk á landsbyggðinni sem hefur því miður í mörg ár þurft að búa við allt of háan flutningskostnað sem hefur leitt af sér skerðingu á lífskjörum vegna þess að allt verður miklu dýrara í slíku ástandi.

Að lokum vil ég segja að við framsóknarmenn munum taka þetta mál fyrir sem og fulltrúi okkar í samgöngunefnd, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Hér er um efnismikið frumvarp að ræða en í fljótu bragði efast ég ekki um að þeir sem standa að þessu frumvarpi hafi unnið gott starf. Þó er ljóst að samgöngunefndar bíður ærið verkefni að fara yfir þetta stóra frumvarp og enn og aftur væri æskilegt við lok þessarar umræðu að heyra í hæstv. ráðherra hvað hann hefur til málanna að leggja þegar kemur að háum flutningskostnaði á landsbyggðinni.