Landflutningalög

Mánudaginn 02. nóvember 2009, kl. 16:08:50 (0)


138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[16:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi þennan mikilvæga sjóð sem hefur það hlutverk að jafna verð á eldsneyti í landinu. Ég minntist á það í minni stuttu ræðu áðan að fjármálaráðherrar síðustu ríkisstjórna hafa yfirleitt haft það að markmiði að leggja þennan sjóð af. Það kom oftsinnis inn á borð hjá þingflokki Framsóknarflokksins. Málið fékk þar mikla andstöðu og náði aldrei svo langt að rata inn í fjárlagafrumvarp þegar Framsóknarflokkurinn var við völd.

Þess vegna kom það á óvart haustið 2007 þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafði tekið við völdum að sjá það í frumvarpinu að gert væri ráð fyrir að leggja þennan sjóð af. Það hafði aldrei komist svo langt þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn að nefna það á nafn í fjárlagafrumvarpi. Það var ein fyrsta fyrirspurnin mín að haustlagi árið 2007 til hæstv. þáverandi ráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, hvernig stæði á þessu. Sem betur fer, eftir mikil mótmæli hjá okkur í stjórnarandstöðunni og einstaka stjórnarliðum, var ákveðið að hætta við þessi áform, enda hefði það hækkað verð á olíu á Þórshöfn um einar fimm krónur, að mig minnir, sem er náttúrlega engin smáræðishækkun.

Ég held að við getum verið sammála um það, við hæstv. ráðherra, að við séum ánægðir með að þessi sjóður skuli enn vera við lýði. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að hugur okkar framsóknarmanna hefur aldrei staðið til þess að leggja þennan sjóð af enda var það Framsóknarflokkurinn þegar hann var í ríkisstjórn, sem kom í veg fyrir að þessar tillögur, sem voru sprottnar upp í fjármálaráðuneytinu, gengju eftir. Ég vona að munum geta haldið áfram að standa saman í þeirri baráttu að stuðla að flutningsjöfnun á olíu um allt land til þess að olíulítrinn austur á fjörðum eða vestur á fjörðum verði ekki miklu hærri en hann er í Reykjavík og er þó verðmunur enn til staðar í dag þrátt fyrir tilvist sjóðsins.