Landflutningalög

Mánudaginn 02. nóvember 2009, kl. 16:10:58 (0)


138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[16:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það tekur því ekki að við séum að karpa um það liðna í þessu, aðalatriðið er að komast fram á við. Þess vegna fagna ég mjög þeim áföngum sem við höfum náð til lækkunar flutningsgjalda eða sem komið hafa í veg fyrir frekari hækkun, eins og ég gat um hér áðan. Vonandi tekst okkur að feta þá braut áfram.

Örlítið vegna laga um olíuflutningsjöfnunarsjóðinn. Hjá nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á vordögum 2007 var búið að leggja, eins og alltaf er á þeim tíma, grunn að fjárlögum næsta árs hjá ríkisfjármálahóp sem svo er kallaður, sem ákveðnir ráðherrar sitja í. Þá sáum við það í fyrsta skipti, við ráðherrar Samfylkingarinnar, að til stæði að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Þegar spurt var um hvers vegna það stæði til svaraði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra því að sú ákvörðun hefði verið tekin í þáverandi ríkisfjármálahópi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að leggja af þennan sjóð, olíujöfnunina.

Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég geri mér grein fyrir því að þarna voru kosningar að skella á og ég er ekki svo viss um að niðurstöður af því fjárlagafrumvarpi sem þáverandi ríkisstjórn ætlaði að leggja fram hafi endilega verið komnar til þingflokka stjórnarflokkanna á þeim tíma. Þetta er einfaldlega vinnulagið sem þarna var, því miður. Menn unnu þetta á vordögum, síðan komu kosningar í maí og svo tók ný ríkisstjórn við. Aðalatriðið er að þetta er í gildi núna. (BJJ: Þetta var slæm ríkisstjórn.)